136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:11]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna ákvörðun hæstv. ráðherra um að fara með þetta mál til Hæstaréttar. Það er full ástæða til að reyna að hnekkja þeirri niðurstöðu sem þarna varð samhliða því að rétt er að vekja athygli á að helstu málsástæðurnar, sem voru þær að Vegagerðin mundi skaða Teigsskóg um of, var í raun og veru vísað frá í héraðsdómi. Héraðsdómur hafnaði kröfum um það efni og öðrum sem tjaldað var til til að reyna að koma í veg fyrir þessa vegagerð að undanskildu einu atriði sem varðar þverun tveggja fjarða.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að mér ofbýður algjörlega framganga félagasamtaka eins og fuglaverndarsamtakanna og Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem þau leggja sig í líma við að torvelda vegagerð, þarfa vegagerð á landsbyggðinni, en þegja þunnu hljóði þegar Vatnsmýrin í Reykjavík er grafin sundur og saman í byggingum. Grafin sundur og saman (Forseti hringir.) án þess að nokkurt hljóð heyrist úr horni frá þessum ágætu samtökum.