137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

erindi frá kröfuhöfum vegna íslensku bankanna.

[15:03]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um nein formleg erindi frá kröfuhöfum hvorki til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né EFTA eða ESA, ef verið er að vísa til þess. Hins vegar veit ég að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur rætt við kröfuhafa, eins og reyndar aðra sem eiga hagsmuna að gæta, en það hefur ekki komið neinn þrýstingur á okkur í gegnum þá leið, þ.e. það getur vel verið að kröfuhafar hafi rætt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en það hefur ekki leitt til neins þrýstings á íslensk stjórnvöld sem mér er kunnugt um og það sama gildir um EFTA.

Hins vegar er alveg ljóst og hefur legið fyrir í marga mánuði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur áherslu á að gætt sé jafnræðis meðal kröfuhafa og hefur m.a. beitt sér fyrir því að ekki sé tekið upp svokallað tvöfalt gengi þar sem kröfur sumra eru greiddar út á óhagstæðara gengi en kröfur annarra en það er ekkert nýtt í því.

Það er kannski rétt fyrst þessi fyrirspurn er komin fram að benda á að það getur vel verið að Eftirlitsstofnun EES eða ESA taki til skoðunar hvort Íslendingar hafi í einu og öllu farið eftir þeim skuldbindingum sem okkur ber samkvæmt samningnum við Evrópska efnahagssvæðið og m.a. reyna á neyðarlögin og gjaldeyrishöftin og stjórnvöld eru að sjálfsögðu undir það búin, en það hefur ekki verið gripið til neinna sérstakra aðgerða annarra en að undirbúa málsvörn ef til þess kemur.