139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Er það rétt skilið hjá mér að endaafurðinni, rammaáætluninni, geti lokið fyrir jól? Er það það sem hæstv. ráðherra sagði? Að sjálfsögðu er frumvarpið forsendan fyrir því, það klárast einhvern tímann á þessu þingi og þá gæti rammaáætluninni verið lokið fyrir jól og við komin með niðurstöðu sem skiptir landinu okkar góða í nýtanleg og friðlýst svæði.

Varðandi það sem er heimilt en ekki skylt — bara til að hnykkja á því: Segjum að sótt sé um virkjunarleyfi á grundvelli einhvers sem er í nýtingaráætluninni, og það er kannski hægt að svara því með jái eða neii, getur ráðherra, á grundvelli þess að þetta sé einungis heimildarákvæði, hugsanlega farið gegn vilja Alþingis (Forseti hringir.) og neitað virkjunarleyfi vegna þess að ekki er tekinn af allur vafi í ferlinu?