139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera komin með þetta frumvarp inn í þingið vegna þess að það er mjög mikilvægt.

Mikið hefur verið talað um og þeirri vinnu hampað sem sett var af stað í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að vinna þessa rammaáætlun. Hins vegar hefur ýmislegt komið hingað inn sem sætir furðu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hver tilurð 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er þar sem fram kemur að verndar- og nýtingaráætlun taki ekki til landsvæða sem njóti friðlýsingar í samræmi við 50. gr. laga um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálanum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Nú eru forsendur friðlýsinga mjög ólíkar, mjög mismunandi, og í gegnum tíðina hafa vissar friðlýsingar ekkert endilega fjallað um virkjunarkosti á svæðum. Ég efast því um að í meiri hluta tilvika sé fjallað um það eða tekin afstaða til þess í friðlýsingarskilmálum hvort virkjanir séu heimilar á þeim svæðum. Er einhver heildaryfirsýn yfir þetta hjá hinu opinbera? Veit hæstv. ráðherra hvaða áhrif þetta hefur og liggja slíkar upplýsingar einhvers staðar fyrir?

Ég tel eðlilegra að treysta þeirri aðferðafræði sem sátt hefur verið um þangað til á undanförnum mánuðum þegar farið var að skipta út hinum og þessum fulltrúum í verkefnisstjórninni sem komu þá inn með þau sjónarmið að það væri ómögulegt að vera með friðlýst svæði í matinu. Er það þannig að ríkisstjórnarflokkarnir treysta ekki matinu sem fram fer af hálfu verkefnisstjórnar? Ef þessi svæði, sem eru friðlýst af mjög ólíkum ástæðum, eiga að vera í verndarflokki þá koma þau að sjálfsögðu þannig úr matinu. Að sjálfsögðu munu þau gera það. Ég tel að þetta ákvæði sé þarna (Forseti hringir.) til að friðþægja vinstri græna. Mig langar að fá svar við því frá hæstv. ráðherra.