139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hefur hæstv. ráðherra misskilið mig allhrapallega ef hæstv. ráðherra telur að ég telji það tilraun til íhlutunar að ráðherra leggi fram lagafrumvarp. Það lá ekki í orðum mínum. Það sem ég vísaði til var tilraunin til íhlutunar í störf verkefnisstjórnar um rammaáætlun sem unnið hefur samkvæmt erindisbréfi í mörg ár að skila af sér niðurstöðum. Okkur greinir á um það hvort ráðherra eigi að krukka í vinnu verkefnisstjórnar meðan hún stendur yfir eða ekki. Að sjálfsögðu fer ráðherra með valdið að geta lagt fram lagafrumvarp. Um það er enginn ágreiningur okkar í milli.

Hins vegar vil ég minna á, af því að vísað var til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöðu þingmannanefndarinnar út af henni, að við sem vorum í nefndinni lögðum þunga áherslu á að þingið ætti að vera sjálfstæðara í vinnubrögðum sínum og leyfa sér að taka mál og kryfja þau til mergjar og breyta þeim eins og við höfum gert, sérstaklega í félagsmálanefnd. Ég vonast til að ráðherrann sýni sjónarmiði mínu skilning að í þessu máli á þingið ekki að vera feimið við að koma fram með sínar breytingar vegna þess að málið er gríðarlega mikilvægt.

Auðvitað er náttúruverndaráætlun í gildi og við könnumst báðar, bæði ég og hæstv. ráðherra, við umræðuna sem átti sér stað í þinginu þar sem ég ásamt fleirum mótmæltum vinnulagi hæstv. umhverfisráðherra. Við verðum seint sammála um alla hluti enda er það ljóst að við erum ekki í sama stjórnmálaflokki og áherslur okkar eru gerólíkar í þessum málum.