139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

43. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sannast að segja hef ég ekki miklar áhyggjur af því að vægi stjórnarflokka, eins og sagt er, mundi aukast mjög með þessu fyrirkomulagi. Þetta var nokkuð rætt í umræðu um daginn um stjórnarskrárbreytinguna um sama efni. Ég veit að margir hafa áhyggjur af þessu og hefur verið talað um að styrkja megi stjórnarandstöðuna, og ég tel sjálfsagt að gera það.

Ég hef hins vegar ekki áhyggjur af þessu vegna þess að ég tel að ráðherrar tækju ekki þátt í umræðum hér nema um sína málaflokka og væru ekki að skipta sér af öðrum umræðum. Ég er líka á því að á endanum ræður atkvæðavægi valdahlutföllum á þingi og hvað þar er ákveðið. Og oftast er nú samkomulag hér í þessu húsi þó að það fari miklu meira fyrir hinu. En þá er það vægi atkvæða sem ræður og það mun ekki breytast.

Auðvitað kostar þetta. Ég held að einhver hafi reiknað út að miðað við að tíu ráðherrar færu út væru það 190 millj. kr. á ári eða eitthvað svoleiðis og það er mikið. Ég er alveg fullkomlega á því að fækka ráðherrum og fækka þingmönnum til að lækka kostnað, já.