139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það að ég tali út og suður um óskyld mál þá er ekkert að því að setja málið í samhengi við önnur mál. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún mun væntanlega koma aftur í andsvar, hver er munurinn á því að greiða atkvæði um það hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið eða leyfa þjóðinni að ákveða það? Leyfa Íslendingum að ákveða hvort við eigum að halda áfram eða fylgja tillögunni sem hv. þingmaður er aðili að? Hver er munurinn á þessu? Að mínu viti er enginn munur. Misstór mál kannski. Evrópusambandsmálið er enn þá stærra en þetta. Það kemur ágætlega fram í skýrslunni hvernig við teljum að það sé uppfyllt m.a. með því að fara pottaleiðina svokölluðu, þ.e. að skipta þessu upp í tvær deildir eða tvo potta eða hvað við köllum þetta. Ég tel að verið sé að uppfylla það, já.

Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á í máli sínu að Reykjavík er mjög stór verstöð, líklega stærsta einstaka verstöðin. En það breytir því ekki að um 90% af aflaheimildum og vinnunni er úti á landi. Að segja við starfsfólk eða fólk í landvinnslu á Norðurlandi, Austurlandi, Snæfellsnesi eða Vestfjörðum að það sé áframhaldandi óvissa um framtíð þess og vinnu er ekki gott að mínu mati þegar búið er að leggja fram tillögu sem hægt er að byggja á. Við eigum að vinna áfram með tillöguna sem nefndin skilaði, eins og lagt er til og klára málið. Athuga hvort við náum fram frumvarpi eins og hv. þingmenn hafa nefnt sem almenn sátt getur verið um. Ég fullyrði að það verður aldrei alger sátt, aldrei nokkurn tíma. Ef næst almenn sátt eða meiri hluti, þá tel ég það býsna góðan árangur. Ég held að við ættum frekar að stefna að því.