140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

38. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka stuðninginn við þetta frumvarp og er bara komin hingað upp til að ræða hvers vegna svona margir sem orðnir eru 67 ára eru enn að greiða af námsskuldum. Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér og er með þá kenningu að stór hluti þessara 112 sé einfaldlega foreldrar fólks sem lent hefur í veikindum og ákveðið að taka á sig námslánin í stað þess að senda barnið sitt í þá þrautagöngu að biðja um niðurfellingu á hverju einasta ári. Mér skilst að það þurfi að senda inn beiðni um það á hverju ári þrátt fyrir að viðkomandi hafi staðfest langvarandi örorku eða veikindi. Það væri samt mjög áhugavert að skoða hvort það eru fyrst og fremst foreldrar í þessum hópi yfir 67 ára aldri að greiða lánin niður.

Þetta frumvarp hefur verið gagnrýnt fyrir að vera einhver skuldaaflausn fyrir tekjuháa menntamenn fyrst og fremst, en þá gleymist að endurgreiðslurnar miðast við tekjur. Margt menntafólk í dag sem hefur verið lengi í námi er að velta fyrir sér hvort það eigi ekki að flytja til Noregs til að fá hærri tekjur, greiða þannig hraðar niður námslánin og ná því þá að vera skuldlaus við 67 ára aldur. Ég trúi því að samþykkt þessa frumvarps muni draga úr spekilekanum sem er í gangi núna, muni draga úr hvatanum til að flytja til Noregs og losna undan (Forseti hringir.) námsskuldum.