140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur andsvarið og áhugaverða nálgun hennar varðandi þrjá þætti lista; ljóðlist, tónlist og myndlist. Það hefur svo sem lengi tíðkast í skólum og þá einkum á yngri stigum að gefa nemendum tækifæri til að myndskreyta ljóð, en það er líka annað sem ég kom ekki inn á í máli mínu áðan en það er að gefa nemendum tækifæri til að semja ljóð, hvort sem þau eru krafin um að nýta sér þekkingu sína á stuðlum, höfuðstöfum og rími eða þekkingu sína á myndmáli til að yrkja.

Ég þekki það af eigin raun sem kennari að það er ótrúlegt hvað krakkar eru flinkir við slíkt og ég á frá kennaraárum mínum nokkrar ljóðabækur bekkja sem eru teknar fram endrum og sinnum þegar maður rekst á þær í bókahillunni og það kemur mér alltaf meira og meira á óvart hvað þau voru mörg hver djúp í hugsun og hvað þau náðu að segja mikið með fáum orðum. Það kennir okkur að það að vinna með tungumálið sjálfur á einhvern hátt skilar manni kannski mestu og bestu þekkingunni. Ég held að það sé verkefni sem flestir ættu að hafa í huga þegar horft er til þessarar þingsályktunartillögu.