140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla. Flutningsmenn eru málshefjandi og hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Davíð Stefánsson, Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Lilja Mósesdóttir.

Tillagan hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með það að markmiði að heimspeki verði skyldufag á báðum skólastigum innan fjögurra ára.“

Tillaga þessari lík var flutt á síðasta þingi og fór í umsagnarferli hjá menntamálanefnd þingsins sem þá var. Í þeim umsögnum sem komu fram við tillöguna voru helstu athugasemdir þær að ef til vill væri of bratt farið með breytingar á námskrám á mjög stuttum skilgreindum tíma. Því er bætt við, nú þegar þessi tillaga er lögð fram í annað sinn, í lok tillögunnar „innan fjögurra ára“, þ.e. gefinn er fjögurra ára aðlögunartími til að innleiða þessar breytingar á námskrám. Það gefur ráðuneytinu og skólum þann tíma sem þarf til að þjálfa kennara sem hafa hugsað sér að taka að sér kennslu í þessum greinum, þetta gefur þeim nægan tíma til að fá þá þjálfun.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Markmið tillögunnar er að efla kennslu í heimspeki og að kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.

Með vísan til 8. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008 er lagt til að tryggt verði að heimspeki verði skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir. Þar sem um allnokkra breytingu á aðalnámskrám er að ræða er talið æskilegt að gefa ráðherra allt að fjórum árum til að innleiða breytinguna.“

Þegar frumvarpið var lagt fram í fyrra og sent til umsagnar komu ellefu umsagnir um málið. Umsagnaraðilar voru meðmæltir málinu í sjö þeirra, en í sumum umsagnanna var að vísu fyrirvari um innleiðingu breytinga á námskrám þar sem talið var að tíminn væri of knappur. Hefur verið reynt að mæta þeim tilmælum með því að breyta tillögunni og gefa fjögurra ára frest til innleiðingarinnar á breyttum námskrám. Einn umsagnaraðili var meðmæltur málinu en setti fram ákveðnar efasemdir um gildi þess og í þremur voru umsagnaraðilar mótfallnar málinu af vissum ástæðum, meðal annars hagsmunafélag kennarastétta í annarri fræðigrein sem vildi ekki vera sett skör lægra en heimspekikennarar. Kannski skiljanlega, en eins og ég hef ávallt skilið það heimspekinám sem ég hef verið í, og það hefur verið talsvert um ævina, er það mjög margþætt og fjölbreytt, en fyrst og fremst er heimspekinám grunnstoð undir nám í nánast öllum öðrum fræðigreinum. Þess vegna er m.a. lögð þessi áhersla á að heimspekin sem slík verði tekin út fyrir sviga á framhaldsskólastigi með stærðfræði og íslensku sem skyldunámsgrein alls staðar.

Það er athyglisvert að í Morgunblaðinu þann 13. október síðastliðinn var örstutt frétt um eflingu kennslu í gagnrýninni hugsun. Í fréttinni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hafa hafið verkefni sem ætlað er að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum landsins. Áhersla verður einkum lögð á grunn- og framhaldsskólastig. Verkefnisstjórn skipa prófessorarnir Páll Skúlason, Vilhjálmur Árnason og Svavar Hrafn Svavarsson.

Markmiðið er að hefja útgáfu ritraðar um gagnrýna hugsun og siðfræði og setja saman námskeið fyrir kennara sem hafa hug á að innleiða gagnrýna hugsun og siðfræði í sitt fag. Einnig hefur verið opnuð heimasíða, www.gagnryninhugsun.hi.is, þar sem nálgast má upplýsingar, kennsluefni og greinar.“

Ég hefði nú ekki getað óskað mér betri tímasetningar á betra fyrirbæri tengt þessu máli en kemur fram í þessari frétt því að ef eitthvað er þá styrkir þetta enn frekar þingsályktunartillöguna og gerir fólki náttúrlega kleift að samþætta þessi atriði eins og einmitt er talað um í henni. Mér er kunnugt um að hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur áhuga á þessu máli og hefur fagnað mjög frumkvæði þingsins sjálfs að því að heimspeki verði sett skör hærra á grunn- og framhaldsskólastigi en hefur verið hingað til. Hér er ekki eingöngu átt við heimspeki sem siðfræði heldur ekki síður gagnrýna hugsun, en heimspeki tekur til svo margra annarra þátta líka að hægt er að flétta nám í heimspeki inn í fjölmargar aðrar námsgreinar og ekki síst, með tilliti til þingmálsins hér á undan um ljóðakennslu, skiptir fagurfræðin þar miklu máli. Mín skoðun er sú að ef það væri skylda að nemendur í skólum lærðu meira um fagurfræði væri einfaldlega mun friðvænlegra í heiminum.

Ég vona því að þessi tillaga fái góðan framgang. Hún fer væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar sem fjallar um hana og skipar talsmann í málinu. Ég vil að endingu þakka fyrir það að við fengum að skjóta málinu inn allnokkru fyrr á dagskránni í dag en reiknað var með, í þriggja daga þingmálavertíð hv. þm. Árna Johnsens. Það var gott að koma málinu tímanlega að því að bæði ég og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sem erum flutningsmenn að þessu máli þurfum að vera annars staðar eftir klukkan fimm í dag.

Þetta mál byrjar vel og vonandi verður framhaldið á því gott.