140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði bara að veita örstutt andsvar um þann áhuga sem fólk hér hefur sýnt á að flytja þetta einnig inn á leikskóla- og háskólastig. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er að áður fyrr höfðum við bara Háskóla Íslands, en nú erum við komin með nokkra fagháskóla í alls konar greinum þar sem fólk heldur að það geti lokið einhverju alvöruakademísku háskólaprófi með það eitt í farteskinu að læra til dæmis um dýr. Ég held að einmitt á þeim vettvangi sé nauðsynlegt að minna fólk á hvaðan hugsunin kemur á bak við fögin sem það er að læra. Ég fagna því ef fólk teygir þetta frumvarp enn lengra.

Niður á við, á leikskólastigið, held ég líka að gæti verið skemmtileg pæling. Ég hef að vísu sjálfur verið þeirrar skoðunar að börn á leikskólum eigi að vera á leikskólum til þess að leika sér og ekkert annað, en þau þurfa engu að síður að læra að umgangast hvert annað með vitrænum hætti, af kurteisi og með skipulögðum hætti. Grundvöllur siðfræðikennslu á því stigi er að sjálfsögðu æskilegur líka.

Að öðru leyti fagna ég ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Hún situr í allsherjar- og menntamálanefnd og það virðist ágætisstuðningur við málið þar. Það hefur verið gaman að taka þátt í þessari umræðu í dag.