141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir þessa hluti aftur, og það sem snýr að mörkuðum tekjustofnum. Hver er reynslan undanfarin ár eða áratugi? Það er mjög einfalt, hún er þessi: Þegar markaðir tekjustofnar fara hátt upp vex stofnunin. Þegar markaðir tekjustofnar lækka síðan aftur eykst ríkisframlagið. Þetta eru staðreyndir sem blasa við okkur hjá hverri stofnun á fætur annarri. Ekki bara einni eða tveimur, þetta eru mál sem eru á borði hv. fjárlaganefndar og hafa verið þar á þeim stutta tíma sem ég hef setið í henni.

Þetta er bara staðreyndin. Þess vegna getum við líka tekið svo mörg önnur dæmi til viðbótar, það er svo mikið óréttlæti í þessu kerfi þó að það snúi kannski ekki beint að þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið. Við hæstv. ráðherra erum bara sammála um að vera ósammála um hvort ekki væri mjög æskilegt að setja þessar tæpu 900 milljónir í heilbrigðisstarfsemina en ekki til Ríkisútvarpsins. Við gætum tekið dæmi um fullt af öðrum stofnunum og ég hef tekið það margsinnis fram í mínum ræðum.

Það eru ekki deilur um það þvert á stjórnmálaflokka hvort hlífa eigi grunnþjónustunni. Það eru engar deilur um það hvort hlífa eigi heilbrigðisþjónustunni. En á sama tíma og við erum að skera þar niður, og höfum gengið dálítið bratt fram í því og mjög langt — við heyrum lýsingar á því meðal annars í þessum tiltekna fjölmiðli — hafa sumar stofnanir með markaða tekjustofna og sumar með sértekjur sem koma jafnvel beint úr ríkissjóði eða í gegnum ráðuneytin verið að blása út, jafnvel um 15%–20%. Það er auðvitað mjög óeðlileg stjórn á fjármálum ríkisins þegar engar deilur eru um hvernig eigi að gera þetta. Þegar fjárveitingar eru afmarkaðar í fjárlögum til viðkomandi stofnana er niðurstaða ríkisreiknings allt önnur en ráða mætti af umræðunni hér og ákvarðanatöku.

Hér ræðum við fram og til baka hvort setja eigi 1 milljón eða 2 milljónir í þessa stofnun eða hina, bara til þess að hlífa lágmarksþjónustu, líknardeildum og svoleiðis. En svo renna hundruð milljóna til annarra stofnana með markaðar tekjur. Við verðum að ná tökum á þessari vitleysu. (Forseti hringir.)