143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:09]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu sem lögð hefur verið fram sem þskj. 59. Til að fara aðeins yfir forsögu málsins þá var það í júní 2012 sem ráðgjafarhópurinn var skipaður af þáverandi iðnaðarráðherra og var hópnum falið það hlutverk að kanna möguleika á að leggja raforkustreng á milli Íslands og Evrópu. Meðal þess sem hópnum var ætlað að greina voru samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif af verkefni sem þessu en jafnframt tæknileg og umhverfisleg atriði sem og að greina lagaumhverfi og milliríkjasamninga um þetta mál.

Í stuttu máli skilaði ráðgjafarhópurinn skýrslu sinni í júní á þessu ári. Var hópurinn samdóma um að frekari upplýsingar þyrftu að liggja fyrir áður en unnt væri að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja streng sem þennan á milli Íslands og Evrópu og í skýrslunni kemur fram að margir óvissuþættir fylgi framkvæmd af þessum toga.

Eftir að hafa kynnt mér efni skýrslunnar varð það niðurstaða mín að mikilvægt væri, áður en lengra yrði haldið, að upplýsa Alþingi um efni skýrslunnar og kalla fram umræðu um málefni sæstrengs hér á hinu háa Alþingi. Þetta geri ég hvort tveggja í senn til að fá fram afstöðu þingheims í þessu máli og eins til að ýta undir almenna umræðu í landinu um þetta málefni. Ég tel rétt, þegar svo risavaxið mál er á ferðinni sem hér um ræðir, að um það fari fram ítarleg umræða þar sem allar hliðar máls eru ræddar, jafnt kostir sem gallar. Ég legg skýrslu nefndarinnar því hér með fram til þessarar umræðu.

Ég mun óska eftir því að skýrslunni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar en ég vil einnig hvetja aðrar nefndir þingsins og atvinnuveganefnd eftir atvikum til að vísa skýrslunni annað og leita álits í öðrum þingnefndum til að þetta mál verði skoðað út frá mismunandi sjónarmiðum. Ég nefni hv. umhverfisnefnd vegna umhverfislegra þátta og efnahags- og viðskiptanefnd vegna þeirra efnahagslegu álitamála sem þessu eru tengd.

Umræða um útflutning raforku frá Íslandi í gegnum sæstreng er langt í frá ný af nálinni. Umræðan hefur af og til skotið upp kollinum á undanförnum áratugum án þess að hún hafi orðið ítarleg á meðal almennings eða á hinum pólitíska vettvangi. Ráðgjafarhópurinn skilaði með skýrslunni margs konar gagnlegum upplýsingum sem munu nýtast okkur hvort sem af framkvæmdinni verður nú eða mögulega síðar. Ég tel rétt að taka almennt undir ábendingar hópsins hvað varðar óvissuþætti málsins og tel því rétt að kanna málið til hlítar áður en ákvarðanir verða teknar.

Þá er ekki síst mikilvægt, eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi, að allar ákvarðanir í málinu verði byggðar á okkar forsendum og óháðar þrýstingi erlendis frá. Í sérstakri umræðu um þetta mál fyrr í haust heyrðust þau sjónarmið að mikilvægt væri, áður en lengra yrði haldið, að fara fyrst til Bretlands og hefja viðræður um hugsanlegt orkuverð. Sumir hafa jafnvel haldið því fram að Alþingi geti ekki tekið þá umræðu sem hér er að hefjast nema fyrir liggi upplýsingar um mögulegt orkuverð.

Ég er því ósammála og tel að nú þegar liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar til að svara fjölmörgum pólitískum spurningum sem vaknað hafa síðan umræðan hófst fyrr í sumar. Sem dæmi þá þurfum við ekki frekari upplýsingar til að svara því hvert fyrir sig hvort við viljum almennt nýta íslenskar orkuauðlindir til atvinnusköpunar á Íslandi eða á Bretlandseyjum. Til að taka annað dæmi þá tel ég okkur geta svarað því hvert fyrir sig hvort við séum tilbúin til að fórna mögulegum frekari tækifærum til uppbyggingar í grænum iðnaði hér á landi sem treystir á að hér sé eingöngu í boði græn raforka. En það er ljóst að með tilkomu sæstrengs opnast á þann möguleika að flytja inn raforku til landsins t.d. á nóttunni, og þá er ekki lengur hægt að tryggja að hér sé einungis raforka sem framleidd er á sjálfbæran hátt.

Á þetta hafa fyrirtæki bent — ég get nefnt fyrirtækið Greencloud sem rekur tölvuský og er staðsett á Íslandi einmitt vegna þess að hér er einungis græn raforka í boði. Þeir hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þessu. Þá hafa garðyrkjubændur lýst yfir svipuðum áhyggjum af þessu með tilliti til hugsanlegrar hækkunar á raforkuverði með tilkomu sæstrengs en í dag eru þeir að kaupa umframorku sem með tilkomu sæstrengs yrði hægt að selja til útflutnings á mun hærra verði en fæst fyrir hana í dag.

Þriðja spurningin sem við ættum að geta rætt án frekari upplýsinga er sú staðreynd að með því að fara í framkvæmd sem þessa mun orkuverð hérlendis hækka og þar með talið verð á raforku til almennings líkt og vitnað er til í skýrslunni sem hér er lögð fram og eins í skýrslu Gamma sem unnin var fyrir Landsvirkjun. Þar er gengið út frá því að tekið verði upp einhvers konar niðurgreiðslukerfi á raforku og það gæti komið í veg fyrir slíkar hækkanir. Þá þurfum við líka að gera okkur grein fyrir því að það yrði alltaf pólitísk ákvörðun á hverjum tíma að niðurgreiða rafmagn og þá umræðu þurfum við því að taka með opin augu. Eins þyrfti að svara í þeirri umræðu hvort niðurgreiðslur ættu einungis að eiga við um heimili eða hvort fyrirtæki sætu þar við sama borð og þá kemur spurningin um samkeppnishæfni o.fl. þar inn í.

Hvað varðar þá hugmynd að fara í viðræður við Breta til að fá fram mögulegt orkuverð þá tel ég mikilvægt, áður en í slíkar viðræður verði farið, að til staðar verði sterkt umboð og áður hafi hinum stóru pólitísku spurningum, til að mynda þeim sem ég hef varpað hér fram, verið svarað hér heima enda ljóst að til að af framkvæmdinni geti orðið þurfum við að öllum líkindum að ráðast í frekari virkjunarframkvæmdir og byggja flutningskerfið upp stórfellt til að það geti annað 700–1.200 megavatta raforku til flutnings á sæstreng.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á mikilvægi þess að svona ákvörðun hafi traustan stuðning meðal þjóðarinnar og í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn og vísað þar til erindis sem hann flutti á ráðstefnu í Bretlandi. Þar er yfirskrift að þjóðarsátt sé forsenda sæstrengs til Evrópu og ég tek undir það sjónarmið forstjórans. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að það sé vegna þess að Landsvirkjun er einmitt þessa dagana að láta kanna hug þjóðarinnar til þessa máls. Það vill þannig til að ég lenti sjálf í úrtaki hjá Gallup nú fyrir helgi og var spurð að því hvert viðhorf mitt til sæstrengs væri. (Gripið fram í.) Það er spurning hvort þið getið veitt það upp úr Gallup en þegar ég var spurð um starfsheiti sagðist ég vinna í stjórnsýslunni.

Ljóst er að lagning sæstrengs, með flutningsgetu upp á 700–1.200 megavött, mun hafa í för með sér víðtæk áhrif, efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg. Má þar aftur nefna áhrif á raforkuverðið, aukningu þjóðartekna, hugsanleg ruðningsáhrif, umhverfisáhrif vegna nýrra virkjana og línulagna, orkuöryggi o.s.frv. Hver áhrifin verða er hins vegar að mörgu leyti enn óljóst og því þörf á áframhaldandi gagnaöflun áður en unnt verður að taka upplýsta afstöðu til slíks verkefnis. Að auki eru síðan fjölmörg tæknileg atriði sem þarfnast nánari skoðunar þar sem sæstrengurinn yrði lengsti raforkustrengur sem lagður hefur verið í heiminum.

Í nýlegri blaðagrein komu fram áhyggjur tveggja verkfræðinga af því hvernig viðhaldi strengsins yrði háttað yfir vetrartímann en þar var því haldið fram að erfitt gæti reynst að gera við ef bilun kæmi upp og afleiðingin gæti í versta falli orðið sú að ekkert rafmagn færi um strenginn á meðan, hugsanlega í einhverja mánuði. Ég þekki það ekki, þessir verkfræðingar þekkja það betur en ég. Ég býst ekki við að við hv. alþingismenn höfum almennt tæknilega þekkingu til að ræða svo tæknileg álitamál. En þau þarf að ræða og það er mikilvægt að taka á ábendingum sem þessum og fara yfir þær í fyllstu alvöru. Einnig þarf að ræða yfirvegað hvernig eignarhaldi strengsins eigi að vera háttað. Um er að ræða gríðarlega stóra fjárfestingu, fjárfestingu upp á 288–553 milljarða kr. samkvæmt skýrslu ráðgjafarhópsins. Því er haldið fram af einhverjum að strengurinn eigi alfarið að vera í eigu einkaaðila á meðan aðrir segja að reynist framkvæmdin arðbær sé eðlilegt að Landsnet eigi og reki strenginn þannig að arðurinn af rekstri hans skili sér til Íslands. Spurningin um eignarhald og rekstur er án efa pólitísk og hv. alþingismenn þurfa því að taka þann þátt inn í umræðuna.

Því miður hefur umræðunni um sæstreng oft verið stillt þannig upp að annaðhvort sé um að ræða að selja raforkuna til stóriðju hér innan lands eða flytja hana úr landi gegnum sæstreng. Ég hef áður sagt og segi það enn að ég tel hér um talsverða einföldun að ræða, málið er mun flóknara en svo.

Eitt af því jákvæða við sæstreng er sú staðreynd að hann mundi með öllu koma í veg fyrir sóun í raforkukerfinu. Í dag rennur talsverður hluti af vatnsaflinu ónýttur til sjávar en með tilkomu sæstrengs yrði hægt að nýta allt það afl til útflutnings. Eins eigum við sóknarmöguleika til að nýta vindorkuna með tilkomu sæstrengs.

Þá er á það bent að tenging raforkumarkaðar leiði alla jafnan til hagkvæmari vinnslu og dreifingar en ella, minni þörf sé fyrir varaafl, nýting raforkunnar sé betri og minni kostnaður við stjórnun kerfisins.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að bresk stjórnvöld hafa sýnt lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands verulegan áhuga að undanförnu. Bretum er líkt og fleiri Evrópuríkjum mikið verkefni á höndum við að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkukerfi sínu, fjölga orkuöflunarkostum og tryggja betur orkuöryggi sitt. Ég skil mætavel áhuga Breta, enda væri það klárlega í þeirra þágu að bæta raforkuöryggi sitt og tryggja græna orku til framtíðar. Við þurfum hins vegar hér að gæta hagsmuna okkar í þessum efnum fyrst og síðast og gæta þess að allar ákvarðanir séu teknar með þá hagsmuni að leiðarljósi.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan eru margir óvissuþættir í málinu og ýmsum mikilvægum spurningum enn ósvarað. Sem dæmi um slíkar spurningar má nefna, eins og áður hefur verið nefnt, hver ætti að eiga og reka strenginn og hvernig hann yrði fjármagnaður. Hver yrðu áhrifin á almennt raforkuverð á Íslandi, hver yrðu áhrifin á raforkuframboð til iðnaðar, stóriðju? Hversu mikið þarf raforkuframleiðsla að aukast til að afla orku fyrir sæstrenginn? Felur sæstrengur í sér útflutning á hrávöru í stað fullunninnar vöru? Hver yrðu umhverfisáhrifin? Hver eru áhrifin á fiskstofna, á hvali, á hafsbotninn?

Umræðan um sæstreng er á frumstigi og af framangreindum ástæðum tel ég, og ítreka það sem mér þykir afar mikilvægt, að Alþingi eigi að koma að þessari umræðu á þessum tímapunkti. Ég vil ekki stíga frekari skref í málinu þar til þeirri umfjöllun er lokið Það er einlæg von mín að sú umræða sem hér fer fram geti orðið okkur að leiðarljósi um framhald málsins og að stjórnvöld ákveði í kjölfarið næstu skref í málinu og taki skýra afstöðu. Hver þau verða ræðst af sjálfsögðu af umræðunni en sem dæmi um valkosti varðandi framhald málsins mætti til að mynda nefna eftirfarandi þrjá möguleika:

Í fyrsta lagi að fela starfshópi eða starfshópum að kanna ítarlegar afmarkaða þætti framkvæmdarinnar. Í öðru lagi að samhliða frekari gagnaöflun og sem lið í henni hefji stjórnvöld könnunarviðræður við mögulega samningsaðila — bresk stjórnvöld hafa þar helst verið nefnd — um með hvaða hætti sala á íslenskri orku gæti átt sér stað í gegnum sæstreng, lengd samninga, ívilnanir fyrir endurnýjanlega orku, eignarhald o.fl. Í þriðja lagi getum við líka tekið þá ákvörðun að hægja á frekari könnunum í sambandi við verkefnið.

Það er mikilvægt að Alþingi taki virkan þátt í stefnumótun stjórnvalda í þessu máli og því biðla ég til þingheims og nefnda þingsins að leggja sitt af mörkum til að umræðan geti orðið okkur að gagni í að varða leiðina áfram.

Hæstv. forseti. Ég legg til að skýrslu ráðgjafarhópsins verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar. Ég hvet nefndina til að senda hana formlega til umsagnar til annarra nefnda þingsins þannig að umræðan geti farið fram á sem flestum stöðum og út frá sem flestum sjónarhornum.