143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[16:01]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Við eigum að horfa á Ísland og orkumálin í alþjóðlegu samhengi. Eftirspurn eftir orku, ég tala nú ekki um eftir hreinni og endurnýjanlegri orku eins og við Íslendingar búum yfir, hefur aukist mjög og í raun hefur landslag í orkumálum í heiminum gjörbreyst á síðastliðnum tíu árum. Ástæðan er sú að orkuverð fer hækkandi í heiminum, mengun er vaxandi vandamál og síðast en ekki síst er það óttinn við að orkuöryggi þjóða verði ógnað, en maður getur vel ímyndað sér hvað það mundi þýða fyrir nútímasamfélag sem fengi ekki orku. Það mundi algjörlega lamast.

Samkvæmt raforkulögum frá 2003 er það hlutverk Landsvirkjunar að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbærri nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Eitt af þeim hugsanlegu viðskiptatækifærum sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er að selja raforku um sæstreng til annarra landa, t.d. Bretlands eða Hollands. Hugsanlegt er líka að Grænlendingar og Færeyingar gætu nýtt sér strenginn.

Könnunarviðræður vegna þessa máls gætu tekið þrjú ár áður en komið er að ákvörðunarstigi. Samkvæmt orðum Harðar Árnasonar, forstjóra Landsvirkjunar, yrði það alltaf í höndum annarra en Landsvirkjunar að leggja slíkan streng því að það er gríðarlega kostnaðarsamt og aðeins á færi stórra fjárfesta með langtímahagnað í huga.

Mjög margir sem ég hef rætt við um þetta mál hafa áhyggjur af því að raforkuverð til heimila og atvinnulífs mundi hækka við það að við seldum raforku á hærra verði á markaði, t.d. til Bretlands. Svarið er já, raforkuverð innan lands mundi hækka. Eitt af helstu lífskjaramálum á Íslandi er einmitt sú ódýra raforka sem okkur stendur til boða og það eru þvílík lífsgæði því að raforkuverð í nágrannalöndunum eins og Bretlandi hefur snarhækkað á síðustu árum eins og áður segir og raforka orðin gríðarlega stór liður í efnahagsreikningi heimilanna.

Ég er ekki viss um að ég vildi fórna þeim lífsgæðum fyrir sæstreng, mundu margir segja. En svarið er að íslenskum stjórnvöldum væri í lófa lagið að bæta almenningi þá hækkun t.d. í gegnum skattkerfið, svo að þetta þarf ekki að hafa úrslitaáhrif.

Svo eru það þeir sem segja að miklu viturlegra sé að nota orkuna hér heima og skapa störf og verðmæti í eigin landi. En þá er komið að lykilpunktinum í því hvers vegna ég tel að við eigum að kanna þetta betur og ræða t.d. við Breta eða aðra sem hefðu áhuga á lagningu sæstrengs. Hann er sá að stór hluti þeirrar orku sem við mundum selja um strenginn, líklega 30–40%, er umframorka sem nú þegar er til staðar. Þar sem álver eyðileggjast ef slökkt er á þeim í meira en örfáar klukkustundir hefur Landsvirkjun þurft að byggja virkjanir sem eru nægjanlega stórar til þess að geta annað orkuþörf álveranna jafnvel á versta tíma í afleitu vatnsári. Öll hin árin þegar vatnsbúskapur Landsvirkjunar er betri flæðir umtalsvert vatn fram hjá núverandi virkjunum óbeislað. Verðmætin fara þannig forgörðum svo tugum milljarða skiptir.

Ég legg til að ríkisstjórnin láti skoða þetta mál af fullri alvöru. Það er mín bjargfasta skoðun að við eigum að nýta næstu þrjú ár eða svo til að meta möguleikann á arðsemi verkefnisins, kortleggja ítarlega áhættuþætti þess og gera frekari úttekt á þjóðhagslegum áhrifum sæstrengs o.s.frv. Ég er sammála forstjóra Landsvirkjunar í þeim efnum að ekki verður lagt af stað í þetta stóra verkefni nema þjóðin standi helst öll á bak við það, þvert á pólitískar línur. En nýtum tímann vel og skoðum málið ofan í kjölinn áður en við tökum ákvörðun.