143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:27]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er náttúrlega flutningsmaður málsins, stuðningsmaður þess, þannig að ég tel að komið hafi verið komið til móts við þær athugasemdir sem fram komu í sumar og snúa að persónuverndarsjónarmiðum.

Hvað varðar þær áhyggjur sem hv. þingmaður lýsir hér varðandi heimildarákvæði í 3. gr. um að Tryggingastofnun sé heimilt að fresta ákvörðun á greiðslu bóta þar til upplýsingar liggja fyrir, þá held ég að þetta heimildarákvæði sé mjög mikilvægt. En það er líka mikilvægt að gerðar séu skýrar kröfur til Tryggingastofnunar eins og annarra opinberra stofnana um að gæta meðalhófs við beitingu á þeim heimildum sem við felum stofnuninni.

Eins og ég sagði í fyrra svari mínu þurfum við að gæta að því að hér er verið að fara með almannafé. Það þarf að liggja ljóst fyrir að þeir sem sækja um greiðslur frá Tryggingastofnun eigi raunverulega rétt á þeim. Ég held að það sé til hagsbóta fyrir alla, sérstaklega bótaþegana, að reyna að hafa upplýsingarnar sem réttastar þannig að Tryggingastofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli þeirra um það hversu háar greiðslurnar eiga að vera. Það hefur valdið mörgum bótaþegum miklum vandkvæðum þegar upplýsingar hafa verið óljósar eða ekki réttar og þeir hafa þess vegna fengið ofgreiðslu og þurft að endurgreiða þær bætur.

Ég ræddi í ræðu minni um mikilvægi þess að við séum með rafræn samskipti til að tryggja að upplýsingarnar séu sem réttastar á hverjum tíma. Það er raunar það sem koma mun öllum best, sérstaklega bótaþegunum sjálfum að mínu mati.