144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

aðgerðir til að draga úr matarsóun.

21. mál
[17:01]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Ég fagna mjög þessu máli og tel að það sé Alþingi mjög til framdráttar að beita sér fyrir málum sem þessum. Ég tek eftir því líka að fyrir þinginu liggur önnur þingsályktunartillaga um að draga úr notkun plastpoka. Ég held að það sé okkur mjög þarft að fara að hugsa um þessi mál dags daglega, hvernig við erum í raun og veru að ganga á þær auðlindir sem jörðin gefur okkur. Í sambandi við matarsóun er það náttúrlega staðreynd að á meðan við sóum mat og hendum matvælum hér í stórum stíl hafa margar milljónir manna um heim allan ekki í sig og á. Bara það er nóg fyrir mig til þess að vilja styðja þetta mál.

Ég held við þurfum að líta í svo mörg horn hvað þessi mál snertir. Við ætlum að taka okkur taki varðandi matarsóun og plastpokanotkun, en við þurfum líka að horfa á loftslagsmálin, hafið í kringum okkur o.s.frv.

Ég tek eftir því að þetta er mál sem almenningur lætur sig miklu varða. Maður tekur eftir því að fólk er mjög fljótt að vilja taka þátt í einhvers konar eflingu hvað þessi mál snertir. Ég sé það bara ef ég fer í matvöruverslun að það er mun algengara en áður að fólk komi með eigin taupoka að heiman eða fjölnotapoka og vilji ekki kaupa plastpoka vegna þess að það veit að plastið gufar ekkert upp í náttúrunni eða leysist upp, það leysist ekki upp í frumefni sín heldur brotnar niður í litlar plastagnir sem síðan geta borist með mjög auðveldum hætti inn í lífkeðjuna.

Reyndar þessu tengt með matarsóunina er að rannsóknir hafa leitt í ljós að í hafinu kringum Ísland er gríðarlegt magn af plasti sem mengar sjóinn. Þegar tekin eru sýni úr lífverum í hafinu finnst plast í þeim, svokallaðar plastagnir, og enginn veit í raun og veru hvar þetta mun enda. Við kaupum á hverjum einasta degi úti í búð vörur eins og tannkrem, snyrtivörur og fleira sem innihalda þessar plastagnir. Þær eiga að vera viðkomandi vöru til framdráttar, tannkremið á að virka betur á tennurnar eða vera betra fyrir tannheilsuna, en svo kemur í ljós að með því að bæta við þessum efnum er í raun verið að setja mjög hættuleg efni út í umhverfið. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því og ég er viss um að neytendur gera sér almennt ekki grein fyrir því að slíkar agnir sé að finna í þessum vörutegundum.

Þegar við ræðum því tillögu til þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun þar sem 1. flutningsmaður er Oddný Harðardóttir mundi ég því vilja að við tækjum málið aðeins lengra en bara að einblína á plastpokana.

Mér finnst einnig hafa orðið mikil vakning hér á landi varðandi matarsóun. Ég sá t.d. í fréttum fyrir nokkrum mánuðum að haldin var sérstök ráðstefna eða sérstakt átak þar sem eingöngu var notaður matur sem var „útrunninn“, sem kallaður er svo. Það kemur í ljós að þrátt fyrir að viðkomandi vara sé komin á síðasta söludag eða fram yfir er hún mjög vel neysluhæf. Það þarf kannski að skoða hvernig við metum það að á matvöru sé síðasta söludagsetning.

Það er því í mjög mörg horn að líta í þessum málum. Ein tillaga sem ég hef séð að hefur komið fram erlendis, mig minnir í Belgíu eða Frakklandi, þar er þingmál í gangi, er sú að matvöruframleiðendum, matvörukaupmönnum eða verslunarkeðjum verði gert skylt að gefa það sem ekki selst til góðgerðastofnana í staðinn fyrir að því sé hent á haugana. Það finnst mér mál sem við mættum alveg skoða hér á landi líka. Auðvitað er best að ekki þurfi að setja lög og reglur um svona hluti, það á bara að vera sjálfsagt að menn hendi ekki verðmætum heldur láti þau ganga þangað þar sem þau verða að gagni.

Þannig að ég fagna því mjög að hér á Alþingi ætlum við að taka þessi mál til umræðu og við ætlum að reyna að láta gott af okkur leiða með þessum hætti, því það er aðeins ein jörð og ég held að við sjáum það alltaf betur og betur að við Íslendingar getum ekki látið okkar hlut hjá liggja í því að koma í veg fyrir að við jarðarbúar tortímum okkur sjálfum, sem virðist auðveldlega geta gerst ef ekki verður gripið í taumana. Þótt við búum hér á lítilli eyju í norðri og höfum allt til alls verðum við að hugsa um okkur sem hluta af alþjóðasamfélaginu og hugsa um okkur sem jarðarbúa, ekki bara Íslendinga eða Evrópumenn.

Ég hjó eftir því að forsætisráðherra talaði um það á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir ekki löngu að hann sæi fyrir sér að Ísland yrði fyrsta landið sem hætti að nota jarðefnaeldsneyti. Það finnst mér mjög háleitt markmið og við með alla okkar orku, sjálfbæru orkulindir á Íslandi, gætum vel sett fordæmi á heimsmælikvarða hvað þessi mál snertir.

Önnur spurning sem tengist umhverfismálum því að þessi mál eru svo fjölþætt, kemur upp vegna olíunnar á Drekasvæðinu. Hvað eigum við að gera við hana? Ég hef hreyft þeirri hugmynd, og ég vil bara að menn hugsi um það þegar kemur að nýtingu á þeirri olíu, hvort það væri kannski miklu hagkvæmara fyrir þjóðarbúið og kannski alheimsbúið að láta olíuna vera. Það er kannski miklu stærra mál sem við verðum að skoða og líta vel til röksemda með og á móti í þeim efnum, þetta er ekki eitthvað sem maður er tilbúinn til þess að taka ákvörðun um í dag eða á morgun, en við eigum að velta þessu fyrir okkur og hafa ofarlega í umræðunni um þessi mál.

Ég vil að lokum fagna því sem ég heyrði af á vef Umhverfisstofnunar að ég held, og hefur nú kannski komið fram þótt það hafi farið fram hjá mér, að í Stykkishólmi er sérstakt átak á vegum sveitarfélagsins sem er styrkt af umhverfisráðuneytinu. Sveitarfélagið stefnir að því að verða algerlega plastpokalaust sveitarfélag. Það finnst mér mjög til fyrirmyndar og hvet þá svo sannarlega til dáða í þeim efnum. Í því sambandi mundi ég samt vilja fá að kanna það nánar hvort það sé rétt að ekki séu allir tilbúnir til að leggjast á þessa sveif, það séu matvöruverslanir sem ekki taki þátt. Það væri náttúrlega mjög bagalegt ef svo væri. En ég er mjög ánægð með að þessi mál skuli vera hér til umræðu á mjög breiðum grundvelli eins og þarf að ræða þau.