148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru allir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur áður lagt fram svipað frumvarp. Það var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem lagði það fram síðast, en þetta frumvarp er aðeins einfaldað.

Í frumvarpinu er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf og felur sú breyting í sér aukinn rétt beggja foreldra og þar með ungbarna til samvista við foreldra sína.

Í árslok 2012, í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, voru samþykkt lög nr. 143/2012, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem kveðið var á um lengingu fæðingarorlofs úr samtals níu mánuðum í tólf mánuði. Þegar ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum í maí 2013 var horfið frá þeim breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sjálfstæður réttur hvers foreldris samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 8. gr. laganna verði fimm mánuðir og að sameiginlegur réttur foreldra samkvæmt 3. málslið sömu málsgreinar verði tveir mánuðir. Sambærileg breyting er lögð til á 18. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Sú skipting er í samræmi við niðurstöður starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skilaði velferðarráðuneytinu skýrslu í mars 2016.

Í starfshópnum sátu fulltrúar stéttarfélaga, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Þá var Eygló Harðardóttir, Framsóknarflokki, ráðherra málaflokksins og sú sem skipaði þennan starfshóp.

Þá er tillagan í samræmi við tillögur og málflutning þingmanna Vinstri grænna og raunar þingmanna úr flestum öðrum flokkum. Ætti því að vera nokkur samhljómur um þessar úrbætur jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu.

Þá er rétt að nefna að bæði ASÍ og BHM hafa stutt þær niðurstöður starfshópsins sem þessar breytingar í frumvarpinu taka til.

Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um hvað barneignir eru hverri þjóð dýrmætar, fyrir utan auðvitað þá gleði sem barnalán veitir flestum, enda hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að búa sem best að ungum barnafjölskyldum. Allt of lítið hefur þó verið gert í þeim málum. Dæmi um það eru vandræði á húsnæðismarkaði, sífellt minna vægi vaxta- og barnabóta og skortur á skilvirkum stuðningi sem gagnast ungum barnafjölskyldum á mikilvægu en oft mjög fjárhagslega erfiðu tímabili í lífi fólks.

Unga fólkið er dýrmæt auðlind sem ekki síst mun draga vagninn næstu áratugina fyrir íslenskt samfélag. Það borgar sig að nesta það sem best í þann leiðangur. Það tímabil sem þarf að brúa, frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst á leikskóla, er of langur í dag og reynist mörgum fjölskyldum mjög þungur baggi. Þegar best lætur bjóða sveitarfélög upp á stuðning við dagvistun, þ.e. dagforeldra, sem eru yfirleitt talsvert dýrari en leikskólagjöld. Í öðrum sveitarfélögum er svo ekki bolmagn til slíks, lítið gert og ekkert í boði. Þá geta vandræðin orðið enn meiri en ella.

Þetta er líka þeim sveitarfélögum sem best gera talsvert þungur baggi. Bæði ríkið og vinnumarkaðurinn þurfa að leggja miklu meira af mörkum.

Nú árar vel hjá ríkinu. Staða sveitarfélaga er misjöfn. Hún er þó að batna. En jafnvel þó að bjart sé fram undan hjá sveitarfélögunum er staða margra þeirra í járnum og þau hafa lítil færi til þess að gera mikið betur í þeim málum og munu, held ég, ekki geta lækkað aldur inntöku á leikskóla í 12 mánaða aldur almennt nema til komi mikill stuðningur frá ríkinu. En það er svo seinni tíma mál að ræða það.

Í umræddri skýrslu er jafnframt lagt til að leitað verði leiða svo unnt verði að bjóða öllum þessum börnum dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur. Það er ekki viðfangsefni frumvarpsins en vonandi verður það framhaldsviðfangsefni þingsins því að það er mikilvægt.

Lenging fæðingarorlofs er líka mjög mikilvægt jafnréttismál. Þótt margt hafi færst til mikið betri vegar í þeirri umræðu er enn staðreynd að það er miklu oftar konan sem er heima með barninu og kemst ekki út á vinnumarkaðinn. Það er sá sem hefur lægri tekjurnar sem er líklegri til að vera heima með barninu. Því miður er staðan enn sú í samfélagi okkar jafnvel þótt konur vinni jafn mikilvæga vinnu og jafnvel sömu störf. Það er mjög mikilvægt jafnréttismál að breyta því.

Síðan er staða einstæðra foreldra mjög mikið áhyggjuefni.

Í áðurnefndri skýrslu starfshópsins segir, með leyfi forseta:

„Annað af tveimur meginmarkmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof er að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, meðal annars með því að gera feðrum kleift að taka sér tíma frá vinnu til að verja með börnum sínum á fyrstu mánuðunum eftir fæðingu þeirra án þess að verða fyrir tekjumissi að fullu.“

Það kemur fram í 2. mgr. 2. gr. laganna.

Frumvarpið sem hér um ræðir ætti að styrkja það markmið því að hér er samhliða lagt til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði verði skipt með eftirfarandi hætti: Fæðingarorlofsréttur mæðra verði fimm mánuðir, fæðingarorlofsréttur feðra verði aðrir fimm mánuðir en sameiginlegur fæðingarréttur foreldra verði tveir mánuðir. Báðar breytingarnar sem frumvarpið tekur til eru í samræmi við tillögur starfshópsins frá mars 2016.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á jafnrétti kynjanna. Meðal þess sem sett verður á dagskrá í samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er lenging fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi.“

Það er mjög lofsvert að ríkisstjórnin vilji leggja mikla áherslu á jafnréttismál. Ég hef fulla trú á því með hæstv. forsætisráðherra við stýrið að því verði fylgt eftir. En ég tel hins vegar að ekki sé eftir neinu að bíða. Að þetta mikilvæga framfaraskref eigi ekki að vera nein skiptimynt í kjarasamningum heldur verði það hluti af okkar grunnkerfi sem á ekki að þurfa að véla með eftir því hvernig vindar blása í launamálum fólks.

Ég vonast þess vegna eftir að hér náist nokkuð breið samstaða um frumvarpið og að það verði að lögum fyrr en seinna.

Að lokum legg ég til að þegar þessi umræða er búin verði málinu vísað til velferðarnefndar til frekari úrvinnslu og umfjöllunar.