150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[13:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka málefnalegar umræður. Eins og fram hefur komið eru einstakar aðgerðir í aðgerðaáætluninni ekki óumdeildar og eðlilegt er að um þær sé rætt. Ýmislegt hefur komið fram hjá þingmönnum. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson velti fyrir sér kostnaðarmati. Ég held að á þeim tíma sem ætlaður er í vinnuna í nefndinni verði alveg hægt að koma með nálgun að kostnaðarmati til að sýna skýrar fram á hvernig þetta getur gengið fram. Það getur kannski hjálpað til við vinnu nefndarinnar.

Komið hafa fram sjónarmið sem lúta að því að menn viðurkenni að víða stafar fækkun íbúa m.a. af óheppilegri aldursdreifingu. Meðalaldur hækkar. Það er líka einhæfni í atvinnulífi og minni þjónusta hjá mörgum af minni sveitarfélögunum. Þar eru auðvitað að störfum ýmsir fleiri kraftar en eingöngu sveitarstjórnarskipanin. Það er alveg rétt hjá þeim hv. þingmönnum sem vikið hafa að því. Hins vegar má halda því fram með nokkurri vissu að stærri sveitarfélög geti hjálpað til við að snúa þessari óheillaþróun við með ýmsum hætti. Í aðgerðaáætluninni er m.a. fjallað um störf án staðsetningar. Ríkisvaldið hefur stuðlað að þeim með því að vinna að ljósleiðaravæðingu alls landsins þannig að við getum nýtt okkur nýja tækni til að efla þjónustu við íbúa sem búa ekki við hliðina á ráðhúsi sveitarfélagsins eða þjónustukjörnum þar. Einnig getum við séð fyrir okkur að með bættum samgöngum og bættum fjarskiptum sem og raforku sem hér var líka nefnd geti menn staðsett sig og starfað hvar sem er á Íslandi. Hið opinbera á að ganga þar á undan með öflugu átaki í að vera með störf án staðsetningar á sínum vegum. Ólíkt því sem kom fram hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni eru nefnilega til rannsóknir sem sýna fram á stærðarhagkvæmni. Sú stærðarhagkvæmni hefur hins vegar miðast við nokkru stærri sveitarfélög, sennilega nær 10.000 íbúa. Þá kemur spurningin: Af hverju 1.000 eins og er í tillögunni? Því má halda fram að hér sé það einhvers konar lágmark. Það er enginn bundinn af því og menn geta í raun gert það sem þeir vilja.

Í því samhengi er rétt að minnast örlítið á mjög áhugavert verkefni sem er í gangi í samtali Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og kallast Nýsköpun í norðri. Þar eru menn að velta fyrir sér hvernig þeir geta í samfélagi sem yrði þá sirka 1.500 manns með allt að 12% af Íslandi í sínu sveitarfélagi búið til áhugavert samfélag þangað sem fólk hvaðanæva að vill flytja vegna þess að þeir séu að búa til áhugavert samfélag. Það er jákvæð hugsun í því. Með því að hafa tímann nægilega langan er í þessari þingsályktunartillögu boltanum svolítið kastað til sveitarfélaganna og íbúanna: Hvernig ætlið þið að standa undir framtíðinni? Hvernig ætlið þið að tryggja að það sé ekki einhæft atvinnulíf, ekki vond þróun í aldurssamsetningu? Hvernig ætlið þið að tryggja að þjónustan verði aukin? Það erum ekki bara við á Alþingi sem eigum að ræða það. Það eru íbúar í hverju sveitarfélagi.

Ég hef trú á að þessi stefna leiði sveitarstjórnarstigið vel til móts við framtíðina til að nýta tækifærin og takast á við áskoranir. Tillagan felur í raun og veru í sér að pólitísk forysta er efld í sveitarfélögunum um land allt, stjórnsýslan gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla, sérstaklega fyrir einstök byggðarlög og íbúa þeirra. Ákvæðið um íbúamark felur ekki í sér að samfélögin verði felld saman eða sameinuð í sjálfu sér. Þau verða áfram til og að þeim þarf að hlúa áfram með ráðum og dáð, nýrri hugsun og nýsköpun. Hins vegar er pólitíska forystan sameinuð. Stjórnsýslan er gerð öflugri og hagkvæmari fyrir alla, aðallega þó íbúana. Ég er sannfærður um að gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis sé stigið mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaganna þannig að þau geti betur nýtt tækifærin sem ég nefndi áðan og bætt þjónustuna svo að hún verði einsleitari og jafnari fyrir alla íbúa, alveg óháð því hvar þeir búa, og unnið markvisst að því að ná árangri gagnvart öllum þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Boltinn er hjá sveitarfélögunum. Leikreglurnar eru settar á Alþingi.

Tíminn mun leiða í ljós hvaða fleiri skref verða stigin til að ná betur þessum markmiðum. Aðalatriðið er þó að sveitarstjórnarstigið þarf að þróast í takt við breytingar í samfélaginu og þarfir landsmanna. Það er því ánægjulegt að nú sé komin fram tillaga að stefnumörkun sem hægt sé að vinna skipulega eftir til að tryggja að svo verði. Mín skoðun er sú að það sé ekki gott að láta þetta bara ráðast, eins og kannski hefur verið reyndin að einhverju leyti, því að þá er hættan sú að ekki neitt gerist. Við munum ekki stöðva tímans þunga nið, ekki þróunina, og sveitarfélagamörk eru ákveðin af fólki. Þau eru ekki náttúrulögmál. Menn þurfa að velta fyrir sér á hverjum tíma hvaða skipan sé best til þess að takast á við nútímann og framtíðina.