151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningu hans og vangaveltur. Ég tel að við séum algerlega sammála. Við erum í gegnum þennan faraldur að taka ákvarðanir miðað við þekkingu sem liggur þá fyrir. Það er mjög erfitt að skoða ákvarðanir sem voru teknar fyrir tveimur mánuðum, ég tala nú ekki um fyrir fimm eða sex mánuðum, á grundvelli þeirrar þekkingar sem við höfum núna. Þess vegna sjáum við stundum áherslubreytingar í ákvörðunum og það er þannig t.d. varðandi grímuskylduna. Það er eitt dæmi um áherslur sem hafa breyst eftir því sem þekkingu hefur undið fram. Það er hins vegar alveg rétt að ef gríma er ekki rétt notuð þá gerir hún náttúrlega lítið gagn. Ef hún er rétt notuð þá dregur hún úr því hversu mikið af veirunni berst á milli. Ég held að við öll þurfum að læra það og passa okkur á því að vera ekki að kássast mikið í grímunni með höndunum vegna þess að þá erum við svolítið búin að missa sjónar á því hvert markmiðið er.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni sem segir að gagnrýni sé góð og gagnrýni sé mikilvæg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við beitum virkri hlustun, sem á kannski rætur að rekja í uppeldisfræði, snýst um það að skilja hvað barnið á við þó að það sé ekki nákvæmlega rétt orðað miðað við orðaforða fullorðinnar manneskju, að við reynum að setja okkur í spor o.s.frv. En gagnrýnin umræða þýðir líka að gagnrýni er mætt. Það þýðir ekki að maður geti haldið hverju sem er fram án þess að búast við því að manni sé mætt með gagnrökum. Um leið og maður tekur þá ábyrgð að fara í umræðu með gagnrýni og álitamál þá þarf maður líka að bera ábyrgð á því að standa fyrir máli sínu og þola hin gagnstæðu sjónarmið. Þetta eru vangaveltur sem mér finnst að (Forseti hringir.) við þurfum að halda til haga. En ég er algerlega sammála þríeykinu í þeirra grein þegar þau segja: Yfirvegun og samstaða er, þegar öllu er á botninn hvolft, besta sóttvörnin.