Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:38]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Forseti. Innleiðing fjármögnunarlíkans heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu 2017 og loks á landsbyggðinni 2021 var fyrsta skrefið í eflingu heilsugæslu um allt land. Þó að líkanið sé ekki fullkomið tókst loksins að tryggja að fjármagn fylgi notendum heilsugæslunnar óháð rekstrarforminu. Þannig búa notendur og veitendur heilbrigðisþjónustu við sambærilegar leikreglur sem er frumforsenda þess að hægt sé að færa þjónustuna nær íbúunum. Þá er jákvætt að heyra í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra að fjármögnunarlíkanið sé í stöðugri þróun. En í máli rekstraraðila einkarekinna heilsugæslustöðva ber hæst ójafnan kostnað sem ekki hefur verið nægilega vel útfærður í líkaninu og nægir þar að vísa til ræðu málshefjanda, hv. þm. Hildar Sverrisdóttur, sem fór vel yfir þessa þætti.

Mig langar aðeins að staldra við kosti fjölbreyttra rekstrarforma í veitingu heilbrigðisþjónustu en á höfuðborgarsvæðinu starfa 19 heilsugæslustöðvar. Fjórar af þeim eru einkareknar með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Þjónustukannanir hafa ítrekað mælt heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og njóta þær einkareknu meira trausts og ánægju en aðrar heilsugæslustöðvar. Þá hefur traust og ánægja með þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu almennt batnað sem gefur til kynna að valfrelsi notendanna hafi ýtt undir bætta þjónustu á öllum stöðvum, ekki aðeins þeim einkareknu. Á landsbyggðinni eru verkefni heilsugæslunnar ærin og halli er á rekstri þeirra. Mönnun er svo annað og stærra mál. Það verður að skoða aðrar útfærslur á veitingu þjónustunnar eins og að færa hluta heilsugæsluþjónustunnar heim í hérað með því að gera sveitarfélögum, í samstarfi við heilbrigðisstarfsmenn eða heilbrigðisfyrirtæki, kleift að semja við Sjúkratryggingar Íslands um veitingu þjónustunnar, t.d. hluta úr viku í héraði og eftirfylgni með fjarheilbrigðisþjónustu.

Forseti. Ég verð einfaldlega að nýta tækifærið til að hvetja heilbrigðisráðherra til að efla valfrelsi notenda og heilbrigðisstarfsfólks með því að nýta fjölbreytt rekstrarform heilsugæsluþjónustu einnig utan höfuðborgarsvæðisins.