Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Við samþykktum hér á Alþingi heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og þar segir, með leyfi forseta:

„Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn samkvæmt lögum. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem notendur eiga kost á almennum lækningum, hjúkrun, endurhæfingu, heilsuvernd og forvörnum. Þar skal einnig vera bráða- og slysamóttaka …“

Frú forseti. Það er dýrt, óákjósanlegt og skaðlegt að sjúska með þetta. Þannig hefur þjónustunni verið beint á fyrsta stigið án þess að auka aðgengi, að því er virðist. Raunveruleikinn er nefnilega sá að fjölmargir hafa ekki greitt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á heilsugæslunni. Hvað varðar mig sjálfa er enginn laus tími hjá mínum heimilislækni, enginn. Það er ekki í náinni framtíð, ekki þessum mánuði, ekki á þessu ári, það er bara enginn. Ég get ekki pantað tíma hjá heimilislækninum mínum. Næsti lausi tími á heilsugæslu minni er í lok nóvember. Það er mikið talað um skort á þjónustu heilsugæslulækna á landsbyggðinni. Ég bý í höfuðborginni og þetta er staðan hér. Það var mjög gott þegar sjúklingum var beint á heilsugæsluna til þess að reyna að létta álagið á annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, en það verður þá að fylgja fjármagn og verður að tryggja að hægt sé að veita þjónustuna. Þá var einnig tekin sú ákvörðun að færa leghálsskimanir inn á heilsugæsluna en fyrsti mögulegi tími í leghálsskimun er í lok nóvember. Engin leið er að bóka tíma hjá geðheilsuteymi, en geðheilsuteymin áttu að vera lausnin. Geðheilsuteymin voru líka skrifuð inn í geðheilbrigðisáætlun til ársins 2030. Þetta er raunveruleikinn á Íslandi (Forseti hringir.) og þetta er ekki sérstaklega gáfuleg ráðstöfun af því að það endar á því að við leitum öll á bráðamóttökuna í Fossvogi (Forseti hringir.) eða bráðamóttökurnar annars staðar og það er ekki skynsamleg ráðstöfun.