Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:46]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kannast við sumt af því sem hér hefur verið nefnt, annað ekki. Ég er eindreginn stuðningsmaður blandaðs kerfis. Ég hef áhyggjur af því sem hér er nefnt og hef heyrt að einkareknu stöðvarnar séu í krísu. Ég ber fullt traust til þess að okkar hæstv. heilbrigðisráðherra muni taka á því máli af skynsemi. Við þurfum að hafa blandað kerfi. Ég hef sagt frá því áður hérna og ætla ekkert að orðlengja það, en það var mér til lífsbjargar að eiga sterka einkarekna heilsuþjónustu í að venda, Domus Medica, á sínum tíma þegar ég var búinn að fara á bráðadeild og fá kolranga greiningu og átti að senda mig út í opinn dauðann til útlanda. Sem betur fer var ég með góðan heimilislækni og það er kannski það sem ég sakna mest úr heilbrigðiskerfinu, að vera með gamla góða heimilislækninn sem þekkir mann og hefur byggt upp eðlisávísun varðandi heilsufar kúnnans í gegnum tíðina. Það er ekki jafn greiðlega í boði og var og þetta er allt komið í einhver öpp og rafræn samskipti eins og á flestum sviðum án þess að það sé endilega til beins batnaðar. Ég hef litlar áhyggjur af sjálfum mér hér í höfuðborginni og mínu fólki en ég hef meiri áhyggjur af fólkinu sem ég var að vísitera í síðustu viku í norðaustrinu og sérstaklega þeim sem eiga kannski von á barni eða eru með einhvers konar óvænta heilsubresti. Þar þurfum við heldur betur að bæta í og þétta raðirnar. Hvort sem það er einkarekin eða ríkisrekin heilsuþjónusta þá þarf að jafna kjörin, sjá til þess að kostnaðurinn sé greiddur samkvæmt mati, hvaðan sem gott kemur. Ég ber fyllsta traust til þess að úr þessu verði bætt í bráð og lengd.