Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Aðeins meira úr pistli Sigurveigar Margrétar Stefánsdóttur, með leyfi forseta:

„Fólk með sýnileg sprautuför í handleggjum sem hvergi á heima í samtryggingarkerfinu er á framfærslu félagsþjónustunnar — en bara ef heimilislæknirinn ritar að það sé ekki á leiðinni í vinnu næstu 3 mánuði …“ — Eins og félagsráðgjafar væru ekki miklu betri aðilar til að vega og meta það.

„Talþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, allt er þetta ekki niðurgreitt nema með hjálp læknis, því auðvitað myndi annars fullfrískt fólk sitja hjá sjúkraþjálfurum heilu og hálfu árin og alheilbrigð börn vera send í talþjálfun að óþörfu …“

Þetta er vandinn sem við erum að glíma við. Við erum að búa til biðlista með því að búa til skriffinnsku fyrir lækna. Svo er talað hérna um að verið sé að hóta því að senda lækna í launalaust leyfi. Það er innantómasta hótun sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Við erum með ákveðið marga lækna hérna, við erum með ákveðna eftirspurn eftir þjónustu. Ef þessir læknar fara í launalaust leyfi á einhverri einkarekinni heilsugæslustöð þá fara þeir annað að vinna. Þeir fara ekki að sitja heima launalausir, ekki séns, við skulum bara hafa það alveg á hreinu. Þannig vinna læknar ekki, ég hef aldrei séð þá vinna þannig, þeir vinna, eins og þeir segja, til þess að lækna fólk. Það er þeirra hvati, hvort sem þeir gera það á einkarekinni stofu eða opinberri stofnun. Það sem við þurfum að huga miklu frekar að er að þessi heilbrigðisþjónusta sé veitt á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt fyrir alla einstaklinga og samfélagið. Við hérna þurfum að spyrja okkur að því hvernig við gerum það. Hér beitum við því sem kallast eintryggingakerfi, ekki margtryggingakerfi eins og er í Bandaríkjunum, sem er rándýrt og kostnaðurinn þar margfaldast, en allar þjóðir sem eru með eintryggingakerfi gera þetta á hagkvæman og skilvirkan hátt. En við þurfum að gera það í alvörunni skilvirkt með því að búa ekki til biðlista með skriffinnsku.