Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Alveg með sama hætti og ég hvet menn til að mála ástandið ekki dekkra en nauðsynlegt er ætla ég heldur ekkert að reyna að halda því fram að hér sé allt í lukkunnar standi, nema síður sé. Það eru þó ein ánægjuleg tíðindi t.d., að ég hygg, að hlutfall þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð hafi aldrei verið hærra en undir forystu núverandi hæstv. ráðherra. Það nú alveg stórkostlegt afrek. Þannig að það eru ýmsar bjartar hliðar á húsnæðismarkaðnum. Vandinn er auðvitað að okkur hefur ekki tekist að byggja nægjanlega eða tryggja framboð af húsnæði, hvort heldur það er leiguhúsnæði eða húsnæði sem stendur fólki til boða að kaupa. (Gripið fram í: En félagslegt?) Já, það er hluti af því. Hér er auðvitað verið að styrkja hin félagslegu úrræði líka. Það er auðvitað nauðsynlegt að huga að þeim þætti en það verður þá að vera jafnvægi.

Á ákveðnu æviskeiði erum við líklegast öll leigjendur, sumir vegna þess að þeir vilja það og velja að vera leigjendur og þeir eiga að hafa það valfrelsi. Þess vegna á það að vera hlutverk okkar að tryggja að hér sé líflegur og eðlilegur markaður af leiguhúsnæði. En hann verður ekki til með lögþvinguðum aðgerðum sem verið er að leggja til hér. Það verður ekki eðlilegur leigumarkaður. Hann verður ekki til í excel-skjali í einhverri ríkisstofnun, hann verður til ef menn tryggja að hér sé nægjanlegt framboð sem mætir þeirri eftirspurn sem er eftir leiguhúsnæði. Það er besta trygging fyrir réttindum leigjenda.