Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[14:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja hér að ég er töluvert hugsi yfir þessari tillögu. Ég starfa sjálf, þegar ég er ekki varaþingmaður, sem aðstoðarskólastjóri grunnskóla og hef fyrir utan þingferil starfað sem grunnskólakennari frá árinu 2001. Mér finnst mjög stór orð hafa verið látin falla hér í ræðustól um störf fagfólks í skólakerfinu. Ef ég heyrði rétt það sem hv. þingmaður sagði áðan, að eini staðurinn þar sem börn læri að lesa sé heima hjá foreldrum eða heima hjá ömmum og öfum — nei? Þá hef ég verið að misskilja. (Gripið fram í.) Já, að hann hafi þá sagt að það væri bara ekkert að gerast í skólunum. Mér finnst hv. þingmaður, og nú tala ég sem hv. varaþingmaður, gera lítið úr fólki í skólakerfinu okkar sem er með faglega þekkingu og faglegan bakgrunn í að ákveða hvaða kennsluaðferðir eru nýttar hverju sinni.

Með þessu er ég ekki að segja að ég hafi ekki áhyggjur af niðurstöðum. Ég veit að fagfólk í skólakerfinu er að gera sitt allra besta til að kenna börnunum okkar. Og ef einhver annar ætlar að halda slíku fram þá hvet ég bara viðkomandi til að sækja sér kennaramenntun og stíga inn í það hlutverk.

Í aðalnámskrá grunnskólanna segir, með leyfi forseta:

„Á hverju skólastigi er stefnt að fjölbreyttum viðfangsefnum og starfsháttum til að koma til móts við mismunandi námsþarfir ólíkra einstaklinga og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.“

Mér finnst þessi punktur, mismunandi námsþarfir ólíkra einstaklinga, einmitt vera lykilatriðið. Ég velti því fyrir mér — af því að nú er skammur tími frá því að þetta þróunarverkefni fór af stað og fyrstu tölur segja kannski ekki allt um heildarverkefnið en ég vona það — hvernig ein ríkisaðferð, sem hér er lögð fram, á að koma til móts við ólíkar þarfir, (Forseti hringir.) ólíka getu og ólík áhugasvið hellings af nemendum.