Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvar hv. varaþingmaður stendur í þessu máli. Ef hún er á móti því að leggja áherslu á hljóðaðferð við lestrarkennslu þá er bara einfaldlega að segja það. Það er mjög einfalt mál. Þetta er alþjóðlega viðurkennd aðferð sem er notuð út um allan heim. Við notum ekki alþjóðlega viðurkennda aðferð á Íslandi. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson tók svo skýrt til orða, að kennsluaðferðin sem var þróuð í Háskólanum á Akureyri væri algert drasl. Ég er algerlega sammála því. Ég tilbúinn að fara hvert á land sem er og út í heim til verja þá skoðun mína að við eigum að taka upp alþjóðlega viðurkennda aðferð við kennslu. Það er mjög einfalt mál. Það er einmitt það sem við förum fram á. Ég les hér upp úr c-lið tillögunnar:

„Að leggja áherslu á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni. Við innleiðingu framangreindra breytinga verði haft samráð við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar og samtök kennara.“

Að leggja áherslu á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni — það er væntanlega einstaklingsmiðað. Það breytir því ekki að breyta þarf aðferðinni við kennsluna. Að sjálfsögðu þarf þetta að miðast við þann einstakling sem er að læra og taka stöðumat. Það er það sem við leggjum áherslu á. Ég get því ekki séð að við séum að tala um að það eigi að koma skipun að ofan og það eigi bara að setja alla í sama boxið. Við erum að tala um að taka upp alþjóðlega viðurkennda kennsluaðferð í lestri.

Tölurnar tala sínu mál, ég get farið aftur yfir þær ef þörf er á, varðandi árangur af núverandi lestrarkennsluaðferð í íslenskum skólum. Og að ég sé að ráðast á kennara— ég bara skora á kennara að taka þátt í þessari umræðu. Ef þeir gagnrýna þá kennsluaðferð sem er notuð í Vestmannaeyjum, Kveikjum neistann, þá bara gera þeir það. Endilega. Það sem er raunverulega verið að gera í Vestmannaeyjum er að verið er að taka upp alþjóðlega viðurkennda lestrarkennsluaðferð í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum. Það er það sem verið er að gera. Og árangurinn er augljós.

Þetta er svipað og hingað myndi koma einstaklingur með rannsókn (Forseti hringir.) að sýna Íslendingum fram á að hjól rúlli. Þetta er mjög svipað. Þetta er aðferðin sem er notuð úti í heimi. Þetta er alþjóðlega viðurkennd aðferð en það þarf sérstakt átaksverkefni á Íslandi (Forseti hringir.) til að sýna fram á að þetta sé rétta aðferðin. Við Íslendingar virðumst ekki kaupa neitt sem kemur að utan (Forseti hringir.) nema við búum það til sjálf.