Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

niðurfelling námslána.

155. mál
[14:21]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þingsályktunartillagan er einmitt viðbrögð við þessu svari Menntasjóðs í sögunni sem ég greindi stuttlega frá hérna áðan. Svar Menntasjóðs við þeirri beiðni var: Við höfum ekki heimild til þess. Þessu er ætlað að svara því gati. Ef stjórnvöld geta síðan aftur á móti gripið inn í, ekki bara Menntasjóðurinn, og eru með heimild til þess þá er það bara í fínu lagi til viðbótar. En þá ætti kannski að beina þeirri sögu til stjórnvalda að virkja þessa grein og það gæti t.d. átt við hvað staðsetningu varðar. Við eigum í vandamálum með heilbrigðisþjónustu úti á landi og ef fólk ákveður að starfa við heilbrigðisþjónustu þar mætti mögulega segja að staðsetningarlega séð væri hægt að heimila niðurfellingu námslána á meðan viðkomandi starfar á stað sem er talinn vera brothætt byggð eða því um líkt. Vegna t.d. starfsstétta, eins og við erum að hálfu leyti komin með í alls konar námsstyrkjum til kennara og við heyrum hérna af ansi mörgum starfsstéttum sem er einmitt skortur á, þá væri alveg eðlilegt í stefnumótun stjórnvalda að geta lagt áherslu á eitt eða annað og lofa t.d. niðurfellingu námslána ef viðkomandi starfar við ákveðið starf, jafnvel á ákveðnum stað í einhvern tiltekinn tíma. Þetta varðar líka nemendur sem fara utan til náms til að reyna að fá þá til að koma aftur. Ef þú kemur aftur til Íslands og starfar í þeirri starfsstétt sem þú hefur menntað þig í þá gætu námslán fallið niður að einhverju eða öllu leyti. Við þurfum því miður svona hvata af því að við höfum orðið vör við vandamálin.