Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

niðurfelling námslána.

155. mál
[14:25]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Eins og ég skil þessa heimild sem er þegar til staðar þá er hún einmitt háð því að stjórnvöld geri eitthvað en ekki í rauninni Menntasjóðurinn. Hérna er verið að biðja um að heimildin sé fyrirsjáanleg hjá Menntasjóði þannig að það þurfi ekki að fara alla leið til stjórnvalda og jafnvel inn á þing með fjárheimildir o.s.frv. Það er mjög þunglamalegt. Hérna er verið að biðja um heimildir sem eru fyrirsjáanlegar; ef þú tekur námslán og ef þú lendir í einhverju ákveðnu þá færðu niðurfellingu námsláns. Það er ákveðinn forsendubrestur sem fólk verður fyrir að það sé bara búið að skrifa á blað hvernig það á við.

Svo ég bæti við þá var kvartað aðeins yfir þessu á internetinu. Hver væri sanngirnin fyrir eldri lántakendur sem væru búnir að greiða niður lánin? Það getur t.d. átt við í þessu tilfelli þar sem verið væri að hvetja fólk til að starfa í ákveðinni starfsstétt, ef það er þá styrkur sem slíkur, óháð því hvort það sé búið að klára lánið eða ekki, að styrkurinn sé þá annaðhvort inngreiðsla á höfuðstól lánsins eða bara greiðsla til viðkomandi starfsaðila í stéttinni til að hann haldist þar. Þá erum við kannski að ná jafnræði, en þetta fer aðeins umfram þessa þingsályktun. Hugmyndin er alla vega fyrirsjáanleiki og öryggi þeirra sem ákveða að taka námslán, því þau eru ekkert lítill hluti af því að byrja lífið. Þegar þú kemur út í lífið og byrjar starfsferilinn þá byrjar þú með ákveðinn bagga á bakinu með námslán sem þú þarft að reyna að losna við á sama tíma og þú ert að reyna að byggja allt annað upp. Við ættum að horfa miklu meira til námsstyrkja, alveg nákvæmlega eins og nýsköpunarstyrkja.