154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

almenn hegningarlög.

229. mál
[15:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna í þessu máli og segja að ég er afskaplega hlynnt þessu máli. Þetta kannski tónar dálítið við þá betrunarstefnu sem við höfum verið að ræða hér á Alþingi í dálítið mörg ár að þurfi að koma til og vera miklu algengara heldur en verið hefur og ekki síst á meðal þessa unga fólks sem lendir í því, einhverra hluta vegna, að vera dæmt vegna einhvers konar afbrots. Eðli máls samkvæmt fer það þó eftir afbrotinu á hverjum tíma.

Ég tek undir það, ég held að það sé skynsamlegt að dómarar taki þessa ákvörðun þannig að það sé í þeirra valdi, og þá í samstarfi við aðra, að ákveða hvers konar þjónustu viðkomandi getur innt af hendi í samfélagsþjónustunni, af því að við þekkjum það auðvitað öll að það er bara þannig að þegar óharnaðir unglingar fara inn í fangelsi þá er það bara svoleiðis að þau harðna frekar en að þau snúi af braut, allt of mörg a.m.k. Þess vegna finnst mér að við eigum að einbeita okkur meira að því að þessi samfélagsþjónusta verði algengari heldur en hitt. Við eigum heldur ekki kannski önnur úrræði á færibandi sem þetta unga fólk getur leitað í til að hafa tækifæri til að komast út úr þeim aðstæðum sem það kannski festist í, hvort sem það getur verið vegna neyslu eða einhverra annarra hluta sem þar eru undir.

Þannig að ég vildi nú svo sem kannski bara aðeins koma hérna upp til að segja að mér finnst þetta mikilvægt, að þetta sé valkostur sem dómarar hafi til þess að geta farið í þetta. Og svo er það líka að þetta þýðir kannski fyrst og fremst samstarf við sveitarfélög til að svona úrræði nái fram að ganga. Við þekkjum auðvitað að á sumum stöðum eru til úrræði þar sem ungt fólk sem hefur einhverra hluta vegna lent út af sporinu hefur tækifæri til að eiga sér samastað yfir hábjartan daginn og gera eitthvert gagn. Það er bara mikilvægt að sveitarfélög taki líka vel í þetta og ég hvet þau til að senda inn umsögn um þetta mál því að það getur líka vel verið að það liggi fyrir einhverjar hugmyndir þar til að mæta þessu unga fólki, fleiri heldur en við komum auga á, af því að, eins og ég segi, sum þeirra eru nú þegar með úrræði til að hjálpa þessu unga fólki aftur á rétta leið, a.m.k. gera tilraun til þess og gefa tækifæri til þess.

Þannig að ég alla vega vildi bara koma upp til að segja að mér finnst þetta gott mál og ég vona svo sannarlega að Samfylkingin setji það á oddinn við afgreiðslu þingmála þegar kemur að því. Auðvitað eigum við eftir að sjá umsagnir um þetta en ég tel, án þess að vera að löglærð, að ekki sé stóra meinbugi á því að finna a.m.k.; að þetta ætti að geta náð fram að ganga.