154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[16:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla nú bara að koma hérna upp og segja örfá orð um þetta mál þar sem það er það sem kallast á góðri íslensku, með leyfi forseta, „no brainer“, með öðrum orðum sjálfsagt mál. Þó að okkur meiri hlutann greini á um skilgreiningu hugtaksins þá ætla ég að leyfa mér að segja að í þeirra skilningi sé þetta það sem við myndum kalla tæknilega breytingu. Öll sú pólitík, ef pólitík má kalla, sem liggur að baki þessu frumvarpi, til hennar höfum við þegar tekið afstöðu með lögum um kynrænt sjálfræði. Það er auðvitað bara liður í þeirri þróun í okkar löggjöf, okkar samfélagi og okkar menningu að auka frelsi fólks og vernda mannréttindi einstaklinga til hins ýtrasta, þar á meðal mannréttindin til að skilgreina sig sjálf. Þetta er auðvitað sjálfsagður liður í því og má jafnvel halda því fram að þetta sé eitthvað sem fólki hafi yfirsést á sínum tíma þegar það mikilvæga skref var tekið.

Ég ætla því bara lýsa yfir miklum stuðningi við þetta mál, ég kalla það aftur tæknilega breytingu, og fagna því að við séum á þessari vegferð eins og annars staðar í kerfinu. Hv. þm. Steinunn Þóra nefndi hérna áðan samanburð við lög sem var breytt varðandi þungunarrof. Þar var einmitt verið að víkja frá skilyrðum sem sett voru í lögum um að konur þyrftu einhvern veginn samþykki einhverrar nefndar einhverra miðaldra hvítra karla til að ráða yfir sínum eigin líkama. Við erum náttúrlega enn með eitthvað slíkt — ég nota hér auðvitað ákveðna menningarlega myndlíkingu, ég meina það ekki berum orðum þegar ég tala um miðaldra hvíta kalla. Það snýst bara um það að það eru einhverjir bírókratar sem eiga í rauninni að taka afstöðu til þess hvort fólk eigi að fá að njóta sinna réttinda eða ekki. Það er auðvitað algerlega sjálfsagt að afnema slíkar kröfur. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Steinunni Þóru að það sé kannski eðlilegt að það gerist í skrefum. En það undirstrikar að mínu mati enn frekar hversu sjálfsagt þetta mál er og þetta frumvarp. Ég vona og geri ráð fyrir að það fái góðan hljómgrunn hér í þinginu og verði samþykkt héðan sem lög frá Alþingi hið fyrsta.