132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:02]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi taka undir þau orð sem hér hafa fallið þar sem hæstv. dómsmálaráðherra er þakkað fyrir þá vinnu sem á sér stað í sambandi við undirbúning þessa máls. Mér virðist ljóst að þarna sé vel staðið að verki, undirbúningurinn sé góður og samráð við þá aðila sem málið varðar virðist vera til fyrirmyndar.

Ég vil líka taka undir að sá grunnur sem lagður er undir þetta starf er jákvæður að því leyti að markmiðin sem að er stefnt eru mikilvæg. Það er nauðsynlegt að efla löggæsluna í landinu, bæta þjónustuna við borgarana, auka samhæfingu og samstarf lögregluliða á einstökum svæðum og efla möguleika til þess að ná fram aukinni sérhæfingu og krafti hjá einstökum embættum til að takast á við viðameiri og stærri verkefni en er fyrir hendi í dag.

Þær breytingar sem lagðar eru til með þessum tillögum starfshópsins miða í þessa átt og ég tel að því beri að fagna. Það er ljóst að það kunna að vera athugasemdir varðandi einstök útfærsluatriði og dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að hann hlusti að sjálfsögðu á þau sjónarmið sem koma fram í því sambandi. En það mikilvægasta er að staðið verði við þau markmið sem liggja til grundvallar þessu starfi og að unnið verði áfram með það að markmiði að efla löggæslu í landinu.