133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:15]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Móðir barns sem glímir meðal annars við geðfötlun sagði við mig í gær: „Við erum að vinna verk sem er óþrjótandi og stundum jafnvel óyfirstíganlegt.“ Önnur móðir sagði við mig: „Þegar barnið er annars vegar er uppgjöf ekki valkostur.“ Ég held að mörg okkar þekki til þess hvernig vandi barns eða ungmennis sem stafar af geðröskun getur verið mikil byrði á fjölskyldunni. Í mörgum tilvikum er fjölskyldulífið undirlagt af geðveiki barnsins. Gengið er á rétt systkina þess og öryggi fjölskyldunnar er jafnvel í hættu.

Fagfólk og aðstandendur barna með geðröskun hafa ítrekað kallað á stjórnvöld til að bæta þjónustu við þennan hóp. Ekki hefur vantað viljann að gera betur en seint hefur gengið, meðal annars vegna þess að vandinn fer vaxandi. Því hljótum við að fagna stefnuyfirlýsingu hæstv. heilbrigðisráðherra um umbætur í þessum málum sem kynnt var í síðasta mánuði.

Mörg atriði í útfærslu tillagna hæstv. ráðherra eru hins vegar óljós. Af því hafa foreldrar áhyggjur. Munu til dæmis greiningar sem barnið fær á Miðstöð heilsuverndar barna verða teknar jafngildar í skólakerfinu og á öðrum þjónustuaðilum og þær sem BUGL og Greiningastöðin hafa séð um hingað til? Hvernig verður eftirfylgni í málum barnsins háttað og hvernig verður stutt við skólann til að hann geti tekið á vanda barnsins á þeim vettvangi?

Í nýrri rannsókn Ingvars Sigurjónssonar og fleiri á hegðunarvanda í grunnskólum kemur fram að erfiðustu málin eru að sliga starfsfólk og er kvartað stórum undan úrræðaleysi og samskiptaleysi milli kerfa sem veita þessum börnum þjónustu. Í þessu sambandi spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst útfæra tillögur sínar þannig að þær svari þessum áhyggjum kennara og reyndar einnig foreldra. Mun aukið fjármagn verða veitt til þessa og hver mun bera ábyrgð á því verkefni? Er það Heilsugæslan, Miðstöð heilsuverndar barna eða aðrir aðilar?

Geðsjúkdómar verða ekki læknaðir í einni svipan. Þetta er langvinnur sjúkdómur sem krefst þolinmæði og langtímastuðnings við hinn sjúka og fjölskyldu hans. Við verðum að leggja áherslu á að opinber stuðningskerfi vinni saman að því að leysa vandann en auki hann ekki. Nóg eiga fjölskyldurnar við að glíma samt.