136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga – stýrivaxtahækkun.

[13:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem ég hef fengið við það mál sem ég tók upp í upphafi þingfundar um vinarbragð Færeyinga í okkar garð. Ég verð ekki var við annað en að breið pólitísk samstaða sé um þá afstöðu sem ég þá lýsti. Ég get tekið undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni þar sem hann fjallaði m.a. um afstöðu okkar Íslendinga til aðildarumsóknar Færeyinga að EFTA. Það viðhorf hefur komið fram í máli íslenskra stjórnvalda og þingmannanefndar EFTA að við eigum að styðja við beiðni þeirra þar að lútandi. Í heimsókn EFTA-nefndarinnar til Færeyja nú fyrir skemmstu kom fram í máli okkar hv. þm. Jóns Gunnarssonar — við vorum fulltrúar Alþingis þar — stuðningur við það.

Ég ætla aðeins að víkja að hinu málinu sem tekið hefur verið upp undir þessum dagskrárlið en það er stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Það er nokkuð sérkennilegt að verða vitni að því að ráðherrum í ríkisstjórninni ber ekki saman um það hvort þetta sé hefðbundin stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans, á þeim forsendum sem hann leggur venjulega til grundvallar, eða hvort þetta sé í samhengi við ákvörðun stjórnvalda um að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er mjög mikilvægt að fá það á hreint hvað er satt og rétt í því máli. Ríkisstjórnin hafði lýst þeirri skoðun, gagnvart stjórnarandstöðunni a.m.k., að engin skilyrði héngju á spýtunni gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ekki væru ásættanleg. Ég tel að þessi mikla hækkun, 50% stýrivaxtahækkun, sé ekki ásættanlegt skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Réttilega er hægt að færa hagfræðileg rök fyrir því að slík hækkun sé sett fram til þess að reyna að styrkja gengi íslensku krónunnar en margar ákvarðanir af þessum toga hafa í gegnum tíðina haft þveröfug áhrif víða um heim þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið að. (Forseti hringir.) Það er því ekki sjálfgefið að menn nái fram þeim markmiðum sem að er stefnt með þessari ákvörðun.