138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

79. mál
[15:07]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Erlingsdóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu um þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Þar leggur hv. þingmaður til að kannaður verði möguleiki á aukinni þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja með tilkomu Landeyjahafnar, sem er nú á byggingarstigi, í því skyni að nýta betur þekkingu starfsmanna, húsnæði og tækjakost stofnunarinnar með samstarfi við önnur sjúkrahús. Ég tel að það sé tímabært að horfa fram á veginn og sérstaklega með tilliti til þess að við verðum, hvort sem það er í dag eða til framtíðar, að standa vörð um nærþjónustuna í Vestmannaeyjum. Þó svo að við fáum Landeyjahöfn þá verða válynd veður og það hafa orðið eldgos og það er ekki hægt að treysta á að hægt sé að fara annaðhvort flugleiðina eða sjóleiðina í land.

Þar fyrir utan og miðað við þann fjölda sem býr í Vestmannaeyjum, og vonandi mun sá íbúafjöldi aukast, þá er mjög skynsamlegt að standa frekar vörð um og efla nærþjónustuna þannig að heilsugæslan og sjúkrahúsþjónustan verði fyrst og fremst til að auka og bæta þjónustu við heimamenn, að tryggð sé almenn sjúkrahúsþjónusta og sérþjónusta verði aukin með því að sérfræðilæknar og aðrir komi út í Eyjar en að Eyjamenn þurfi ekki að fara suður til að sækja sérfræðiþjónustu sem krefst ekki hátækniþjónustu eða allra sérhæfðustu þjónustunnar. Í því umhverfi sem við búum við í dag hvað varðar möguleika á samskiptum í gegnum tölvur, rafræn samskipti eins og rafrænar sjúkraskrár, rafræna miðlun, þá verðum við að horfa á mannauðinn á hverjum stað og möguleikana til þess að þjóna út fyrir viðkomandi svæði. Við höfum verið allt of bundin við staðbundna þjónustu, því að það er svo sérstakt með rafrænu samskiptin að þau ganga jú í báðar áttir og þegar við notum tölvuhugbúnaðinn eða tökum upp símann þá höfum við ekki hugmynd um hvar sá mótaðili er eða mótaldið sem svarar okkur er statt á landinu og það skiptir heldur ekki máli. Við þurfum að losna úr þeim fjötrum sem hafa orðið til þess að allt of mikil þjónusta og störf hafa farið á suðvesturhornið og sogað til sín kraftana þangað í staðinn fyrir að horfa á möguleikana á að dreifa þeim.

Fyrst og fremst vil ég hvetja til þess að staðinn verði vörður um heilbrigðisþjónustuna í Vestmannaeyjum, að þar sé mjög öflug slysamóttaka og viðbrögð við bráðasjúkdómum. Þegar við horfum á allar þær sparnaðarleiðir sem við þurfum að skoða mjög vandlega í heilbrigðisþjónustunni sem og annars staðar, sem óneitanlega verður til þess að það fer fram núna ákveðin uppstokkun í heilbrigðisþjónustunni, þá verði ekki farin gamla leiðin að horfa á þá miðlægu sókn sem alltaf hefur verið að flytja sérfræðiþjónustuna eða fara í aðgerðir sem hafa stuðlað að því að sérfræðiþjónustan hefur farið á suðvesturhornið heldur verði frekar horft á hvert svæði fyrir sig og þar með Vestmannaeyjar til að styrkja sérfræðiþjónustuna svæðisbundið þannig að við horfum fyrst og fremst á nærþjónustuna. Og þar sem bæði fagþekking og húsakostur er til að taka við meiri umframþjónustu en er í dag þá á að sjálfsögðu að horfa á Vestmannaeyjar með það í huga í þessari uppstokkun að þar geti verið umframþjónusta og þá sérhæfð þjónusta þar sem skiptir kannski ekki máli eða er mikið dagaspursmál hvenær fólk kemst að, að horft sé til þess hvað varðar sérhæfingu líka.

Ég tek hjartanlega undir þá tillögu að Vestmannaeyjar og Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja gleymist ekki í þessari framtíðarsýn og mér verður hugsað til fæðingarþjónustunnar sem er m.a. það sem ég tel að við verðum að standa vörð um og tryggja þegar ég tala um að það eigi fyrst og fremst að tryggja nærþjónustuna, heimaþjónustuna, að við horfum ekki fram á tillögur sem lúta að því að allar fæðingar í Vestmannaeyjum verði m.a. fluttar upp á land. Að sjálfsögðu á að horfa á dreifingu sérhæfingu með allar stofnanir í huga.