139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Frú forseti. Fyrir réttu ári hafði ríkisstjórnin það í gegn að setja á laggirnar enn eina ríkisstofnunina sem heitir Bankasýsla ríkisins. Þetta er svokölluð fagleg stofnun en mér finnst lítið hafa heyrst frá henni — en þó það og eitt merkilegt sem kom frá þessari stofnun er að hún gat þess að bankakerfið á Íslandi væri allt of stórt. Svo sjáum við að ríkisstjórnin er búin að lána núna Byr hf. 5 milljarða kr. og heldur áfram að viðhalda þessu stóra bankakerfi og því væri fróðlegt að vita hvort þessi ákvörðun hefði verið borin undir Bankasýslu ríkisins. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að þessi bankastofnun komi ekki að ári og þurfi meiri peninga frá ríkissjóði? Við höfum ekki séð neinn rekstrarreikning þannig að mig undrar að þetta skyldi hafa verið gert og fróðlegt væri að fá að vita hvort stjórnarflokkarnir séu sammála í þessum efnum.

Eru menn búnir að gleyma VBS fjárfestingarbanka, 26 milljarðar, Sögu Capital, 7 milljarðar, Sjóvá, 12 milljarðar, og nú er útséð um það í söluferli Sjóvár að ríkissjóður komi til með að tapa 4–5 milljörðum kr.

Frú forseti. Það er grátlegt að horfa upp á hvernig fjármunum er dælt í þetta fjármálakerfi sem er allt of stórt á sama tíma og það er ekki hægt að halda opnum sjúkradeildum á landsbyggðinni.