139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fjallaði áðan um þessar tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar um þjónustusamninga menntamálaráðuneytisins við einkaskólana Menntaskólann Hraðbraut og Keili á Suðurnesjum. Það er rétt að hnykkja á því út af orðum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að ég sagði einmitt að ekki hefði verið um að ræða misnotkun á almannafé í tilviki Keilis, hins vegar var klárlega um að ræða brot á þjónustusamningi og það er ámælisvert og ber að gagnrýna.

Lærdómurinn fyrir okkur á þinginu og stjórnvöld er þessi: Það þarf að stórefla faglegt og fjárhagslegt eftirlit með þjónustusamningum sem ríkið gerir við stofnanir og einkaaðila úti í bæ, hvort sem er í menntakerfinu eða annars staðar. Í þessum tveimur tilvikum dreg ég ekki í efa að báðir þessir skólar fullnægðu ákveðinni þörf fyrir námsframboð í menntakerfinu og ljóst er að nemendur bera starfi þeirra að mörgu leyti vel söguna. Engu að síður er ljóst að þarna eru skólar settir á laggirnar fyrst og fremst að frumkvæði þeirra sjálfra án þess að það sé gert á grundvelli þarfagreiningar eða menntapólitískrar stefnumótunar. Þeir eru reknir að miklu leyti fyrir opinbert fé og komast svo upp með að nýta það í öðrum tilgangi en um er samið í samningum við ríkisvaldið. Það eru þessi vinnubrögð sem ganga ekki í meðferð opinbers fjár. Þessu verðum við að breyta og það verður að tryggja að Menntaskólinn Hraðbraut endurgreiði að fullu ofgreidda fjármuni skattborgaranna. Það á skilyrðislaust að tryggja að þessir skólar og aðrir einkaskólar sem þiggja opinbert fé standi við gerða samninga.

Að auki er mikilvægt að hafa í huga að opinberu skólarnir í þessu landi þurfa að lúta ströngu eftirliti með nemendaframlögum af hálfu ráðuneytisins, sem eðlilegt er, og við getum ekki látið það viðgangast að tvöfalt siðgæði gildi í landinu, eitt kerfi fyrir opinberu skólana og annað með allt öðru svigrúmi fyrir einkaskólana. Ég ítreka það sem fram kom í máli hv. þm. Þráins Bertelssonar, menntamálanefnd mun fylgja þessu máli fast eftir og styðja (Forseti hringir.) hæstv. núverandi menntamálaráðherra í því að tryggja að svona vinnubrögð verði ekki viðhöfð í þessu landi í framtíðinni.