139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum niðurskurð í heilbrigðismálum. Ég held í ljósi ástandsins að við getum öll verið sammála um það að við þurfum að spara en við erum held ég ekki sammála um hvar ber að skera niður og hvaða sparnaður er raunverulegur sparnaður, hvað skilar árangri fyrir ríkiskassann. Ég leyfi mér að efast um að þessi mikli niðurskurður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni skili raunverulegum peningum í kassann. Ég held að þetta sé frekar tilflutningur á kostnaði.

Það getur svo sem verið að þetta sé sparnaður fyrir ríkið en ég er alveg viss um að þetta er aukinn kostnaður fyrir almenning, sjúklinga og aðstandendur þeirra, t.d. með auknum akstri, vinnutapi og fleiru. Þetta er kannski klassísk AGS-aðgerð þar sem samfélagslegum kostnaði er komið yfir á sjúklingana. Ég vil ekki búa í slíku samfélagi.

Ef til vill hefur einhver reiknað það út í excel-skjali að það spari peninga að skerða heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni mun meira en hægt er að líða á 21. öldinni. Gallinn við svona excel-skjalavinnslu er oft sá að þeir sem vinna hana skilja ekki hvers virði hlutirnir eru, hvers virði það er t.d. að fá að deyja í heimabyggð. Sjúkrahúsin á landsbyggðinni eru að mínu mati forsenda byggðar á landsbyggðinni. Það er því hjákátlegt að ráðherra sem leggur þennan mikla niðurskurð til sé í þeirri sömu ríkisstjórn og leggur einnig fram stefnumótandi byggðaáætlun sem hefur það að meginmarkmiði sínu, með leyfi forseta,

„… að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.“ (Forseti hringir.)

Nú spyr ég: Er það raunhæft markmið ef skera á heilbrigðisþjónustu niður með þeim hætti sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu?