139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:23]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það eru sumsé Evrópulönd. Ég hélt kannski að um væri að ræða þriðja heims lönd, Venesúela eða Nígeríu eða því um líkt, þar sem stjórnkerfið er klárlega veikt og umhverfisréttur ákaflega takmarkaður með þeim afleiðingum sem öllum eru kunnar hvað varðar umhverfisástand og framkvæmdir í þriðja heiminum. Þetta eru Evrópulönd. Ég held að þó að hv. þingmaður hafi ekki nefnt það sé það að einhverju leyti rétt hjá honum að við stöndum þeim að baki hvað þetta varðar. Ég held að það séu hins vegar ekki þeir þættir sem þingmaðurinn rak hornin í, ekki það hvað umhverfisráðherra og umhverfisráðuneyti hafa langan frest til þess að gera hlutina eða það að mat á umhverfisáhrifum sem hér var tekið upp að evrópskri fyrirmynd sé svo miklu flóknara hjá okkur eða gangi svo miklu verr eða að bírókratar standi hér í röðum með skriðdreka gegn fjárfestum. Ég held að það sé hvað við höfum lítið gert af því að kanna land okkar, hvað við höfum lítið gert af því að velja þá kosti sem við raunverulega höfum með þeim afleiðingum að hér koma upp aftur og aftur og hafa komið upp í 40 ár — því að þessi slagur hefur staðið hér í 40 ár — deilur um hluti sem við hefðum kannski ekki þurft að deila um. Þannig að við getum þá verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það frumvarp sem hér er á leiðinni geti bætt úr þeim ágöllum sem hafa verið á þessu hjá okkur og við eigum að sameinast um það að skapa þessar leikreglur og koma á þeim átakavelli, sem hér er vissulega um að ræða því það er ekki þannig að hér verði algjörar sættir og faðmlög þótt þetta frumvarp sé samþykkt, þannig að við getum leyst hlutina betur og gert þetta praktískara og hagkvæmara.