139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum verndar- og nýtingaráætlun. Saga hennar er orðin býsna löng og má rekja hana töluvert langt aftur í tímann. Þetta er vinna sem hófst í raun fyrir löngu síðan, mig minnir að í tíð iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hafi fyrst verið farið af stað með þessa vinnu en það kann þó að vera misminni hjá mér.

Það er mjög skynsamlegt að skilgreina þessa þætti, hvað við viljum nýta og hvað við viljum vernda. Við fyrstu sýn finnst mér yfirbragðið á þessu frumvarpi vera að þetta sé frekar á verndarhliðina en hitt, þ.e. að þetta sé frekar verndaráætlun en nýtingaráætlun en auðvitað kann það að vera misskilningur og að auki kann það að breytast.

Það sem allir verða að gera sér grein fyrir er að við þurfum orku til að framleiða vöru og slíkt, í útflutning, innflutning, innlenda matvöruvinnslu en sú orka verður ekki til í ljósaperunni, það þarf einhvers staðar að virkja, það þarf einhvers staðar að búa til þessa orku. Ég held að flestir verði að gera sér grein fyrir því.

Ég mun geyma mér meginumfjöllun um frumvarpið þangað til síðar. Það kemur væntanlega til iðnaðarnefndar og fleiri nefnda en varðandi 2. gr. hef ég ákveðinn fyrirvara um m.a. eignarlandið. Ég er sammála því að skoða þurfi eignarrétt en við megum ekki ganga yfir hann og ganga á hann algerlega blindandi. Það er ákveðinn réttur sem fólk hefur.

Varðandi 3. gr., að iðnaðarráðherra leggi fram tillögu í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra, held ég að í rauninni sé betra að annar hvor aðilinn leggi fram þessa tillögu til þingsályktunar og það sé alveg skýrt hvor það er, þ.e. að iðnaðarráðherra leggur fram þessa tillögu. Hann hefur væntanlega áður eitthvert samráð við einhverja aðila, þar á meðal umhverfisráðherra.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fjallaði ágætlega um 3. mgr. og ég ætla ekki að gera það.

Ég staldra mjög við 7. gr. vegna þess að í henni er talað um að verndar- og nýtingaráætlunin sé bindandi. Með því er að einhverju leyti verið að skerða þann sjálfsákvörðunarrétt sem sveitarstjórnir hafa í dag, svo dæmi sé tekið, sem er annað stóra stjórnsýslustigið í landinu. Ég velti fyrir mér hvort það sé skynsamlegt. Við vorum nokkur síðast í gær að ræða mikilvægi sveitarstjórnarstigsins, fjármál sveitarfélaga og slíkt þannig að ég hef ákveðinn fyrirvara á því.

Síðan er það með verkefnisstjórnina sem fær býsna mikið pláss í þessu frumvarpi. Ég held að við þurfum að hugsa nákvæmlega skilgreininguna á því hvað hún á að gera og slíkt.

Í athugasemdum við frumvarpið segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Einnig er gert ráð fyrir að verndar- og nýtingaráætlunin skyldi stjórnvöld til að hefja friðlýsingarferli vegna þeirra landsvæða sem talið er að rétt sé að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu.“

Svo segir: „Lagt er til að stjórnvöldum sé heimilt en ekki skylt að veita leyfi til orkuvinnslu …“

Þetta vil ég meina að sé kannski ætlunin með þessu frumvarpi, áherslan er á að það sé skylt að hefja friðlýsingu. Þá skil ég það svo að það skipti litlu hvað sveitarfélög, eigendur landa eða aðrir hafi um það að segja, ráðherra sé skylt að sjá til þess að þetta svæði verði friðlýst. Ef það er réttur skilningur hef ég verulegar áhyggjur af því.

Það er ljóst að það á að binda hendur stjórnvalda og binda þá um leið hendur sveitarstjórna og við það set ég fyrirvara eins og málið er í dag. En ég ítreka, frú forseti, að þetta mál fer að sjálfsögðu til nefndar og fær umfjöllun þar. Ég held að það sé brýnt að skilgreina þessa hluti, ég held að það sé brýnt að við reynum að klára þetta mál, þ.e. að það verði til verndar- og nýtingaráætlun til að það sé hægt að nýta þau orkusvæði og vernda þau svæði sem allir eru sammála um að gera. Ég held að til að flýta ferlinu á báðum stöðum hljótum við að þurfa að vera opin fyrir því að kannski séu ákveðin svæði eða ákveðnir kostir sem þurfi að fara betur yfir.