139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[18:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel málinu ekki lokið með skýrslunni, langt því frá, hún var eins og segir í erindisbréfi ráðherra unnin til þess að leggja fram tillögur, með leyfi forseta:

„… skilgreina álitaefni sem fyrir hendi eru í fiskveiðistjórninni og lýsa þeim.“ — Og gera tillögur til úrbóta.

Það er það sem við gerðum. Í framhaldinu af því mun ráðherra, eins og hann segir í bréfi sínu, ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar. Í framhaldi af þessari vinnu mun hann endurskoða hana.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni Ólínu Þorvarðardóttur að ég sem varaformaður þessa hóps og Guðbjartur Hannesson, formaður hópsins, létum fylgja skriflegt erindi frá okkur samhliða skýrslunni sem var skilað til sjávarútvegsráðherra þar sem við lýstum þeirri skoðun okkar að halda ætti áfram vinnu byggðri á þessari skýrslu, á þeim hugmyndum sem þar eru, við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, með pólitískum starfshóp stjórnarflokkanna til þess að halda vinnunni áfram og klára hana á þessum grunni. Það er tillaga okkar og þannig hljóðaði bréf okkar sem í raun og veru var aðeins viljayfirlýsing um hvernig við mundum vilja sjá hlutina gerast í framhaldinu. Við héldum áfram með málið á þeim grunni sem lagður var í skýrslunni og hvernig því lyki sem hér kemur fram eins og ráðherra óskaði sérstaklega eftir að við legðum til að yrði gert.