140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

stytting þjóðvegarins milli höfuðborgarsvæðisins og Norðausturlands.

36. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég legg fram þingsályktunartillögu um styttingu þjóðvegarins milli höfuðborgarsvæðisins og Norðausturlands með lagningu nýs vegar á svonefndri Svínavatnsleið.

Nú er, virðulegur forseti, eitt helsta hagsmunamál byggða í landinu að stytta flutnings- og ferðaleiðir milli svæða, milli byggðarlaga, milli höfuðborgarinnar og byggða úti á landi til að lækka flutningskostnað og til að auðvelda fólki ferðir milli svæða hvort heldur er vegna vinnu eða ferðalaga og tómstundagamans.

Um tíu byggðarlög tengjast hringveginum beint hér á landi, Reykjavík vitaskuld, Mosfellsbær, Borgarnes, Blönduós, Akureyri, Egilsstaðir og áfram mætti telja austur og suður með landinu og nefni ég þar Hvolsvöll, Hellu og Selfoss til viðbótar. Á mörgum þessum stöðum er farið að huga að því að leggja veginn fram hjá hinni eiginlegu byggð. Lengi var um það deilt hvort vegastæði t.d. í Mosfellsbæ ætti að vera með ströndinni eða í gegnum bæinn og er það enn þá umdeilt að hafa valið þá leið að fara í gegnum bæinn. Í Borgarnesi er rætt um að fara með þjóðveginn í sneiðingi meðfram Borgarfirðinum sjálfum til að koma í veg fyrir mikla þungaflutninga í gegnum bæinn, m.a. fram hjá Dvalarheimili aldraðra. Á Selfossi er rætt um að flytja veginn norður fyrir bæinn yfir Þjórsá á móts við golfvöllinn sem þar er að finna. Einnig hafa verið gerðar töluverðar vegabætur eins og á Hvolsvelli og á Hellu til að koma í veg fyrir áhættu af þungaflutningum og fólksflutningum alls konar í gegnum viðkvæm miðbæjarsvæði. Svona mætti áfram telja.

Þessi tillaga fjallar um að flytja þjóðveginn frá Blönduósi, en þar liggur hann í gegnum bæinn miðjan, og horfa til einnar mestu vegastyttingar sem hægt er að framkvæma hér á landi og fara hina svokölluðu Svínavatnsleið eða Húnavallaleið eins og hún hefur stundum verið kölluð.

Með leyfi forseta langar mig að grípa aðeins niður í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu þar sem segir að hafinn verði undirbúningur að gerð vegar sem styttir aðalleið milli landshluta hvað mest allra raunhæfra möguleika til veglagningar hér á landi. Jafnframt verður að telja að veglagningin yrði ein arðsamasta samgönguframkvæmd sem mögulegt er að ráðast í. Er ekki vitað til þess að stytting nokkurs vegar á landinu sé eins hagkvæm þjóðhagslega. Lengi hefur verið horft til þessarar vegstyttingar sem hefur bæði verið nefnd Húnavallaleið og Svínavatnsleið. Áætla má að leiðin muni liggja af núverandi þjóðvegi 1 í landi Brekkukots, norðan Svínavatns og tengjast hringveginum aftur við Fagranes í Langadal. Leiðin er tæplega 17 km löng og styttir hringveginn um allt að 14 km.

Síðar í þessari greinargerð eru færð frekari rök fyrir þessari leið en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki verður fram hjá því litið að stytting hringvegarins á þessum slóðum um allt að 14 km hefði umtalsverða þýðingu fyrir atvinnu og samfélag á Norðausturlandi og fyrir þá nokkur hundruð einstaklinga sem dag hvern fara þarna um á leið sinni milli landshluta. Leiðin gagnast jafnvel Siglfirðingum þar sem leiðin til Siglufjarðar yrði lengri væri farið um Þverárfjall en um þennan nýja hringvegarkafla. Í þessu efni er einnig rétt að nefna að þjóðleiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar er mest notaða vöruflutningaleið landsins. Stytting hennar úr 389 km niður í allt að 375 km, eða sem svarar 3,5% af leiðinni, getur hæglega sparað um hálfa milljón króna á ári fyrir þá flutningabíla sem oftast aka þessa leið.

Lækkun flutningskostnaðar er lífsspursmál fyrir fjöldamörg framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni auk þess sem slíkt er líklegt til að hafa veruleg áhrif á lífskjör almennings. Stytting þjóðleiða hefur þegar skilað umtalsverðu hagræði í þessa veru. Má þar helst benda á liðlega 40 km styttingu vegarins milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, um svonefnda Þröskulda, sem hefur lækkað flutningskostnað á þeirri leið um allt að 10% og þar með leitt til lækkunar vöruverðs. Hagsmunir flutningsaðila — og þar með framleiðenda og neytenda — eru þó hvað ríkastir á helstu þjóðleið landsins, milli Reykjavíkur og Akureyrar, en áætla má að um 500 tonn af vörum fari þar á milli á hverjum virkum degi, sem í heildina gerir ríflega 100 þús. tonn á ári. Slíkt magn er langtum meira en þekkist á öðrum helstu flutningsleiðum landsins. Hvergi á landinu, utan höfuðborgarsvæðisins, eru jafnmörg og stór framleiðslufyrirtæki og í Eyjafirði. Kostnaður þeirra við flutning framleiðsluvarnings á aðalmarkaðinn á suðvesturhorni landsins er þeim mjög íþyngjandi og léttist ekki á næstu missirum nema með styttingu vegleiða eða breyttri gjaldheimtu. Ekki er óalgengt að meðalstór framleiðslufyrirtæki á svæðinu verji um 200 millj. kr. á ári í beinan flutningskostnað, sem í reynd er herkostnaðurinn fyrir að framleiða vöru fjarri aðalmarkaðnum. Þessi kostnaður skekkir verulega samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja sem eru úti á landi og ógnar rekstrargrundvelli þeirra.

Lagning Svínavatnsleiðar mun, auk styttri akstursleiðar og þar með minni aksturs, skemmri aksturstíma og minni losunar mengandi efna, án efa leiða til aukins umferðaröryggis, minni kostnaðar fyrir ökumenn og minni flutningskostnaðar svo og fjölbreyttara leiðavals ökumanna. Leiðin er af mörgum ástæðum augljósasti styttingarmöguleikinn á þjóðleiðinni milli tveggja helstu þéttbýlisstaða landsins og t.d. auðveldari og hagkvæmari en þverun Skagafjarðar. Sú leið styttir hringveginn um rúma 6 km og liggur um mun erfiðara svæði til vegagerðar en Svínavatnsleiðin, enda yfir jökulvötn og mikið mýrlendi að fara. Öðru máli gegnir um ásana vestan Langadals og nýtt brúarstæði yfir Blöndu á nýrri Svínavatnsleið. Á Mjósyndi við Fagranes er besta vaðið á Blöndu frá fornu fari og þar var ferjustaður um aldir. Holtastaðir hafa átt stóra landspildu handan árinnar. Ekki er vitað til þess að áin hafi nokkru sinni flætt þar upp á bakka og eftir tilkomu Blönduvirkjunar er það enn ólíklegra en áður.

Stytting hringvegarins vegna Svínavatnsleiðar minnkar umferð um einn varhugaverðasta hluta þjóðvegarins. Yst í Langadal er illræmdur vegarkafli sem með tilkomu leiðarinnar verður ekki lengur til trafala á hringveginum í slæmum vetrarveðrum. Á þessu svæði milli Björnólfsstaða og Fremstagils gerir á stundum skaðræðisveður og ófærð þegar veður er mun skaplegra annars staðar og vegurinn þar hefur oft lokast vegna ófærðar, auk þess sem þar hafa orðið slys og óhöpp. Stafar þetta af því að í norðan- og norðaustanstórhríð stendur byljóttur vindstrengur niður Langadalsfjall og þessi vegarkafli verður því líkur köflunum undir Hafnarfjalli eða Esju á Kjalarnesi hvað veðurlag varðar en að auki er oft mikil snjókoma og skafrenningur sem gerir illt verra. Með Svínavatnsleið losna menn við þennan slæma kafla.“

Frú forseti. Síðar í þessari greinargerð segir einnig:

„Ljóst má telja að fyrr eða síðar komi að því að leiðin milli Norðausturlands og höfuðborgarsvæðisins verði stytt og sjaldan hefur verið eins brýnt að ráðast í arðsamar og mannaflsfrekar framkvæmdir. Með mögulegum veggjöldum á hinni nýju leið mætti einnig gera ráð fyrir að ýmsir kysu að fara áfram um Blönduós í stað hinnar nýju leiðar, einkum þeir sem ekki væru á hraðferð og mundu hvort eð er líklega æja á Blönduósi. Vegfarendur hefðu því val um hvort þeir nýttu sér hinn nýja veg gegn gjaldi eða færu um Blönduós.“

Frú forseti. Með mér á þessari þingsályktunartillögu eru fimm aðrir þingmenn og vænti ég þess að tillagan fái góða og vandlega umfjöllun í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og legg ég til að henni verði vísað til téðrar nefndar að þessum flutningi loknum.

Ég vil geta þess vegna þeirrar umræðu sem hefur risið vegna þessar framkomnu þingsályktunartillögu að henni er í sjálfu sér ekki beint gegn Blönduósingum. Hér er eingöngu verið að horfa á það svæði sem liggur beinast við að stytta hringveginn um. Það eru víða mjög kröftugar umræður um styttingu hringvegarins og styttri flutningsleiðir almennt á landinu eins og á Suðausturlandi þar sem rætt er um að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 60 km, sem er út af fyrir sig lengsta stytting sem um getur þó að hún verði e.t.v. ekki jafnarðsöm og sú sem hér um ræðir vegna mikillar umferðar á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur og er langtum meiri en leiðin milli Reykjavíkur og Blönduóss tekur á venjulegum degi. Engu að síður er deilt um þessar leiðir á Austurlandi rétt eins og deilt er um styttingu leiða á Norðurlandi enda mundi það e.t.v. gera það að verkum að þjóðvegur 1 færðist frá fjörðum og upp á heiðar og hérað.

Að þessu sögðu vil ég vekja athygli á því að það er víða fjörleg umræða um þjóðveginn, bættar samgöngur og styttri flutnings- og ferðakostnað fyrir fólk, þó það nú væri. Olía og bensín á bifreiðar hefur aldrei verið kostnaðarsamari fyrir almenning og fyrirtæki hér á landi og því hljóta menn að horfa til allra þeirra leiða sem geta leitt til sparnaðar jafnt fyrir almenning, fyrirtæki, neytendur og erlent ferðafólk sem sækir Ísland í auknum mæli heim.

Sem fyrr segir legg ég til að þessi tillaga verði færð til umræðu og meðferðar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og beini þeim orðum til forseta.