141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Forseti. Ég get tekið undir það sem síðasti hv. þingmaður sagði en ég vil þó halda ákveðnum staðreyndum til haga. Ég hef fylgst lengi með umræðum um stjórnarskrána, á þessu þingi sem öðrum. Þegar ég settist á þing árið 1999 byrjaði ég á því að samþykkja viðamiklar stjórnarskrárbreytingar á kjördæmum landsins. Hér á árum áður gat maður farið efnislega í gegnum hverja einustu tillögu. Við höfum þó ekki enn þá fengið tækifæri til að ræða efnislega um þær tillögur sem stjórnlagaráðið setti fram, hvað þá að vita hug hæstvirtra ráðamanna, hæstvirtra ráðherra. Það kom berlega fram í byrjun vikunnar að meira að segja hæstv. allsherjarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fleira, Steingrímur J. Sigfússon, gat ekki einu sinni sagt hug sinn varðandi það hvort jafna ætti kosningaréttinn um allt land. Við höfum ekki fengið tækifæri til þess að ræða það. Þar stendur hnífurinn í kúnni, fyrir utan alla aðferðafræðina sem ég og ákveðnir þingmenn í Framsóknarflokknum höfum verið ósammála um. Ég er ósammála þeirri aðferðafræði sem notuð hefur verið til breytinga á stjórnarskránni. (Forseti hringir.) Ég er hins vegar meira en reiðubúin til að taka þátt í slíkum breytingum og að sjálfsögðu mun ég nýta rétt minn og kjósa. (Gripið fram í.)