141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér gafst ekki tími til að fara í hlutafélagalögin og fletta upp um opinber hlutafélög. En mig minnir að þar standi að ávallt skuli tilgreina félög með ohf., hf. eða ehf. eftir því sem við á. Hér ætti þar af leiðandi alls staðar að standa ohf. á eftir Ríkisútvarpinu ef það ætti að vera í samræmi við hlutafélagalögin.

Hvort það sé í samræmi við hlutafélagalögin að kjósa fulltrúa sem þegar er búið að kjósa þá stendur í hlutafélagalögum að stjórn skuli kosin á aðalfundi. Þá skal hún kosin og hvergi nokkurs staðar annars staðar. Þannig að ef venjan hingað til hefur verið sú að búið er að tilnefna hana áður er ekki þar með sagt að það sé í lagi. Við frekari umræðu hefur ýmislegt komið í ljós sem sýnir að framkvæmdin er bara ekkert í lagi.

Síðan um fulltrúa starfsmanna í stjórn. Það kemur upp mjög skrítin staða þegar starfsmenn eru í stjórn hlutafélaga vegna þess að starfsmaðurinn er í stjórn, stjórn ræður forstjóra, forstjóri ræður starfsmann, og starfsmaðurinn ræður yfir forstjóranum. Þetta eru hringavöld sem urðu Sambandinu á sínum tíma að aldurtila af því kaupfélagsstjórarnir voru bæði yfir og undir stjórn Sambandsins. Það er talið mjög skaðlegt í öllu stjórnskipulagi að hringur sé í valdastrúktúrnum.

Ég legg til að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar kalli til sín sérfræðinga í stjórnskipun fyrirtækja til að kanna hvort þetta fái staðist. Þetta fær staðist ef aðilinn hefur ekki atkvæðisrétt, en þá þarf að undanskilja hann, hann er þá ekki í stjórn heldur einhvers konar ráðgjafi stjórnar.