141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar varðandi kostunina. Ég skal játa að ég hef verið hugsi yfir því sama atriði, hvort undanþáguheimildin sé nægilega skýr eða hvort hún gefi of mikil færi til að víkja frá meginreglunni um að kostun sé óheimil. Ég held að þetta sé hlutur sem við eigum að gefa okkur tíma til að fara betur yfir í nefndinni. Við eigum auðvitað að standa þannig að löggjöfinni, hvort sem er í þessu máli eða öðrum, að þau ákvæði sem við erum að leggja af stað með, sérstaklega ef um er að ræða takmarkanir eða bann af þessu tagi, haldi og við séum ekki með neina sýndarmennsku í þeim efnum.

Nefnd eru þessi skýru dæmi um alþjóðlega stórviðburði. Það sem lýtur að innlendu dagskrárgerðinni er hins vegar síður útfært og það mundi vera það sem ég teldi ástæðu til að skoða betur í nefndinni. Er þörf fyrir að vera með þessa sérstöku heimild varðandi innlendu dagskrárgerðina sem þar kemur fram? Eða er hægt að ná sömu áhrifum með því að beina einfaldlega þeim auglýsingatekjum sem þar væru á ferðinni inn í hina hefðbundnu auglýsingatíma? Ég lýsi mig reiðubúinn til að skoða málið út frá þeim forsendum í nefndinni og tel rétt að við gerum það.