142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að afnema verðtryggingu og það er stefna ríkisstjórnarinnar að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð eftir því sem kostur gefst á. Þingsályktunartillagan sem hér liggur fyrir segir okkur ekkert um hvenær það eigi að gerast en það skapar mikla óvissu, ekki síst á fasteignamarkaði. Í raun væri ekkert mál að gera þetta, þ.e. að afnema verðtryggingu á sumarþingi, ef raunverulegur vilji stjórnarflokkanna væri til staðar.

Við í Samfylkingunni göngum þó ekki svo langt að leggja til að það verði gert nú en við leggjum til að frumvarpi um málið verði skilað í nóvember svo unnt verði að lögfesta afnám verðtryggingar fyrir áramót því að sú óvissa sem þessi ríkisstjórn hefur skapað varðandi lánamál á Íslandi eru ólíðandi og mun hafa alvarlegar afleiðingar ef ekki fara að koma skýr skilaboð frá ríkisstjórninni.