142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Málefni lánsveðshópsins, eins og hann er oft kallaður í umræðunni, voru á borði ríkisstjórnarinnar allt síðasta kjörtímabil. Málið var aldrei leyst. Það var skrifað undir samkomulag nokkrum dögum fyrir kosningar sem fólst í því að ríkið ætlaði að taka lán fyrir vandanum. Þó var engar heimildir að finna á fjárlögum til þess að taka slíkt lán. Fyrir liggur að ríkið er rekið með halla og þess vegna er ákvörðun um að ríkið taki á sig allan raunverulegan kostnað vegna lánsveðshópsins í raun og veru ekkert annað en ákvörðun um að ríkið taki lán til þess að leysa þennan vanda.

Af hálfu lífeyrissjóðanna hefur því sjónarmiði verið teflt fram að það standi ekki lagaheimildir til að ganga lengra. Gott og vel. Við skulum sjá hvort það er þannig eða með hvaða öðrum hætti er hægt að nálgast þetta mál og afgreiða það. En höfum þá í huga að framlag lífeyrissjóðanna er það sem þeir telja að þeir hefðu hvort eð er setið uppi með vegna lánsveðshópsins.

Þegar upp er staðið er samningurinn um að ríkið taki lán og lífeyrissjóðirnir taki það á sig sem þeir hefðu hvort eð er setið uppi með: Ekki neitt.