142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að afgreiða tillögu varðandi skuldavanda heimilanna. Ég verð að viðurkenna að umræðan í dag er komin í býsna mikil vandræði vegna þess að sagt er að hér eigi bara að vera tæknileg úrvinnsla, það sé skýrt og afmarkað verkefni, sem er engan veginn skýrt og afmarkað, og að aðkoma þingsins verði ekki fyrr en afraksturinn liggur fyrir í tillöguformi frá hópum og í frumvörpum. Ég hélt að ég væri að fara í samstarf um einhverjar lausnir, að ég ætti að fara að vinna hér og ég var búinn að leggja mikla vinnu í að reyna að koma með tillögur inn í vinnuna. Því er öllu saman ýtt út af borðinu. Ég sé mér því engan veginn fært að styðja þessa tillögu eins og ég ætlaði að gera. Ég verð að sitja hjá og kasta ábyrgðinni á stjórnarflokkana vegna þess að ég hef ekki hugmynd um hvaða vegferð er verið að leggja fram. Þeir eru búnir að tilkynna mér að við fáum enga aðkomu að þeirri vinnu fyrr en það er allt saman afgreitt og klárt.

Ég harma þetta sem niðurstöðu vegna þess að málaflokkurinn er gríðarlega mikilvægur og það á að vera á höndum okkar allra að reyna að vinna að honum. Ég heiti því á menn, þrátt fyrir þessa niðurstöðu hér, að koma inn í þingið jafnóðum og gera grein fyrir stöðunni, strax frá haustdögum, til þess að við getum fylgst með á (Forseti hringir.) hvaða vegferð við erum og haft áhrif þar á.