143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér áfangaskýrslu um lagningu sæstrengs til Evrópu þar sem ráðgjafarhópur hefur skilað tillögum sínum til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni er farið ofan í ýmsa þætti til að greina þjóðhagslega hagkvæmni, tæknileg og umhverfisleg atriði ásamt tillögum til ráðherra um áframhald á verkefninu.

Landsvirkjun hefur unnið að því að meta hagkvæmni sæstrengs til Bretlands um nokkurt skeið og kynnt þá vinnu sem mögulegt tækifæri til að hámarka afraksturinn af orkuauðlindunum og vitna ég í skýrsluna sem við ræðum, með leyfi forseta:

„Að svo komnu máli er því að mati ráðgjafarhópsins ekki unnt að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands. Hins vegar eru vísbendingar um að slík framkvæmd gæti reynst þjóðhagslega arðsöm að nokkrum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef tækist að semja við gagnaðila um hagstæð kjör á seldri orku með tiltölulega miklu öryggi og til nokkuð langs tíma.“

En sitt sýnist hverjum í þessu máli og er því mjög þarft að draga fram án undanbragða alla þætti sem þetta mál varðar svo hægt sé að meta af skynsemi kosti og galla slíks verkefnis áður en farið væri út í enn frekari vinnslu og fjárfestingar samhliða úttekt á þjóðhagslegri hagkvæmni sæstrengs til Evrópu.

Ég ætla að grípa niður í skýrsluna um þætti sem vekja hjá mér athygli og mér finnst skipta miklu máli þegar við ræðum þessi mál og þegar afstaða verður tekin um áframhald á þessu verkefni. Það er mikilvægt að huga að félagshagfræðilegum áhrifum við lagningu sæstrengs og vitna ég nú beint í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Augljóst má telja að raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja muni hækka með tilkomu sæstrengs og þar með tengingar við raforkumarkað Evrópu. Ætla má að framkvæmdin muni auka tekjur Landsvirkjunar verulega og þar með væntanlega arðgreiðslur fyrirtækisins til ríkissjóðs, þó að það sé í sjálfu sér ekki sjálfgefið. Þannig skapast tekjur sem nýta má til uppbyggingar velferðarkerfis og til að jafna þau neikvæðu áhrif sem fylgja hækkandi raforkuverði, með sérstakri áherslu á þá sem breytingin hefði mest áhrif á, svo sem lítil fyrirtæki sem nota tiltölulega mikla raforku, íbúa á köldum svæðum þar sem raforka er notuð til hitunar o.s.frv. Það er hins vegar engan veginn sjálfgefið að þessar væntanlegu auknu tekjur ríkissjóðs skili sér til þeirra sem hækkun raforkuverðs leggst þyngst á. Því er hugsanlegt að tilkoma sæstrengsins leiði til hærri útgjalda meginþorra almennings, án þess að það skili sér í betri opinberri þjónustu. Jafnvel þótt arðurinn skili sér til ríkissjóðs, kann hann að verða eftir hjá tiltölulega fáum einkaaðilum. Þessu fylgja neikvæð samfélagsleg áhrif sem birtast í ójafnari tekjuskiptingu en áður. Fræðilega séð er hægt að koma í veg fyrir þessi áhrif, en útilokað er að tryggja slíkt fyrir fram. Niðurstaðan ræðst af pólitískum ákvörðunum sem oft eru teknar undir verulegum þrýstingi frá fáum en stórum hagsmunaaðilum.

Miklar líkur eru á að hækkað raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja á Íslandi hafi tiltekin ruðningsáhrif sem dragi úr afkomumöguleikum sprotafyrirtækja og annarra fyrirtækja, svo sem örfyrirtækja í smærri byggðum. Ruðningsáhrif af svipuðu tagi eru þekktur fylgifiskur stórframkvæmda, þar sem smærri starfsemi sem fyrir er getur ekki keppt við hina nýju starfsemi, t.d. í launum, vaxtakjörum eða húsaleigu. Þannig getur tilkoma sæstrengs óbeint leitt til veiklunar tiltekinna atvinnugreina á landsvísu eða staðbundið, svo sem á svæðum þar sem raforka er nýtt til hitunar (svokölluðum „köldum svæðum“). […]

Þegar rætt er um áhrif sæstrengs á hinn umhverfislega þátt sjálfbærrar þróunar er mikilvægt að gera greinarmun á rekstrarhagfræðilegum ávinningi annars vegar og þjóðhagslegum ávinningi hins vegar. Ávinningurinn fyrir einstök fyrirtæki kann að liggja í augum uppi þó að óvissa ríki um þjóðhagsleg áhrif til lengri tíma litið. Eðlilegt verður að telja að þjóðhagsleg áhrif vegi þyngra við ákvarðanatöku stjórnvalda, hvert sem verkefnið er.“

Þetta finnst mér hafa mikla vigt í þessari umræðu og þarna koma fram mikilvægar ábendingar um hugsanlegar afleiðingar á sölu rafmagns til meginlandsins sem hringja öllum viðvörunarbjöllum hjá mér. Það er mikill munur á rekstrarhagfræðilegum ávinningi annars vegar og þjóðhagslegum ávinningi hins vegar. Þjóðhagsleg áhrif verða að vega þyngra að mínu mati en hagur einstakra fyrirtækja og skammtímagróðasjónarmið mega ekki ráða för. Það þarf að horfa til umhverfisþátta jafnt sem samfélagslegra og efnahagslegra þátta.

Eins og við vitum er nú þegar mikil samkeppni um auðlindir landsins og ljóst að umtalsverð umhverfisáhrif fylgja uppbyggingu virkjana af þeirri stærð sem telja má nauðsynlegar til að hámarka nýtingu sæstrengs. Með tilkomu sæstrengs má telja miklar líkur á að uppbyggingu virkjana verði hraðað meira en annars væri og langt umfram það sem nauðsynlegt væri til að mæta innlendri eftirspurn eftir raforku.

Við Íslendingar eigum langt í land með að tryggja afhendingaröryggi rafmagns innan lands og jöfnun raforkuverðs milli landsmanna ásamt því að ráðast í endurnýjun á flutningskerfi raforku sem verður stóra verkefnið næstu árin. Allt þetta kallast á við hugmyndir um sæstreng og forgangsröðun verkefna og hvort við viljum fullnýta vistvæna orku innan lands til eflingar grænu hagkerfi og beint í þágu landsmanna í lægra raforkuverði. Skynsemi og hófsemi á að vera leiðarljós okkar varðandi alla auðlindanýtingu og við verðum að horfa til örrar þróunar í orkuskiptum í heiminum þar sem við höfum möguleika á að nýta okkar innlendu orku í orkuskipti, bæði varðandi bílaflotann og skipaflotann.

Þessi skýrsla er þörf og hjálpar okkur til að vega og meta næstu skref fram á við. Ég viðurkenni þó fúslega að ég er full efasemda um lagningu sæstrengs til Evrópu þó að ég leggist að sjálfsögðu ekki gegn frekari gagnaöflun um málið ef þurfa þykir. Ég tel mikilvægt að ef úr áframhaldandi vinnu verður og við úrvinnslu þessara tillagna sem ráðgjafarhópurinn leggur til við hæstv. ráðherra verði aðkoma allra þingflokka að því verkefni tryggð og annarra hagsmunaaðila, svo sem umhverfissamtaka og annarra þeirra sem málið varðar eins og þetta hefur verið unnið þar til þessi skýrsla var lögð fram.