143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:23]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið.

Í framsöguræðu minni talaði ég um mikilvægi þess að flýta málsmeðferð eins og kostur væri og gæta meginreglu stjórnsýslulaga svo sem varðandi meðalhóf. Síðan er sérstaklega talað um leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu í a-lið 2. gr. Þar kemur fram að Tryggingastofnun sé skylt að leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu og þau réttindi sem hann hefur, hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins. Þar er hugsunin að reyna að tryggja sem best rétt bótaþega þegar kemur að samskiptum við Tryggingastofnun.

Hvað varðar þær athugasemdir sem komu frá Persónuvernd við meðferð málsins í sumar þá er komið hér til móts við þær og ég sagði í framsöguræðu minni að haft hafi verið haft samráð við Persónuvernd. Í 2. gr., g-lið, er fjallað upplýsingaskyldu annarra aðila. Þar er tæmandi upptalning á þeim sem Tryggingastofnun getur kallað eftir upplýsingum hjá.

Eins og ég nefndi áðan þarf auðvitað að gæta meðalhófs. Hér er um að ræða fjármuni almennings. Þá er mikilvægt að þeir fjármunir fari til þeirra sem eiga raunverulega rétt á þeim samkvæmt lögum. Hugsunin með frumvarpinu er að tryggja að svo sé.