143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég taldi að ég hefði svarað þessari spurningu í andsvari við hv. þingmann þar sem ég sagði að ég væri varla að leggja þetta frumvarp fram ef ég teldi það stangast á við stjórnarskrána. Ég tel líka mjög mikilvægt að þingmenn fari að stjórnarskránni, þar á meðal að fara að sannfæringu sinni. Ég reikna ekki með að það hafi breyst neitt nýlega.

Síðan er það þannig að þær helstu athugasemdir sem komu fram frá Persónuvernd, eins og ég ræddi í framsöguræðu minni, voru þær að það væri ekki tæmandi talið upp hjá hvaða stofnunum Tryggingastofnun gæti kallað eftir upplýsingum. Það er komið til móts við þær athugasemdir í þessu frumvarpi.

Ég vil líka minna á það og er ágætt að hafa tækifæri til þess hér í ræðustól að öllum er frjálst, ekki bara opinberum stofnunum á vegum ríkisins, að senda inn umsagnir við meðferð máls í þinginu. Það hefur verið reynsla mín sitjandi hér á þingi að frumvörp batna almennt við meðferð þingsins. Ég geri ráð fyrir að það sama verði með meðferð þessa máls.